Bílar

Fullvaxinn lúxusbíll sem eyðir 3,1 lítra

Finnur Thorlacius skrifar
Porsche Panamera Hybrid er sparibaukur á hjólum.
Porsche Panamera Hybrid er sparibaukur á hjólum.
Það er ekki að spyrja að tæknifullkomnun hinna þýsku verkfræðinga Porsche. Nú er farið að styttast í kynningu á Porsche Panamera Hybrid, en sá bíll markar tímamót í framleiðslu á stórum fjögurra dyra lúxusfólksbíl, en bíllinn sá eyðir svo litlu sem 3,1 lítra eldsneytis á hverja hundrað kílómetra.

Svoleiðis tölur sjást helst í afllitlum títlum með smávélar, en því er ekki að heilsa með þennan bíl. Hann er 416 hestöfl og með 590 Nm tog. Brunavél bílsins skaffar 333 af þessum hestöflum og rafmótorar restina. Bílnum má aka fyrstu 36 kílómetrana eingöngu á rafmagni með hámarkshraðann 135 km/klst.

Með öll þessi hestöfl er bíllinn aðeins 5,5 sekúndur í hundraðið og hámarkshraðinn er 270 km/klst.  Mengun frá bílnum er lítil 71 g/km af CO2. Eitt það albesta við þennan bíl er hversu fljótt má endurhlaða rafgeymana, en það tekur aðeins 2,3 klukkustundir með hleðslustöð sem kaupa má með bílnum og setja upp heimavið.

Samhliða framleiðslu á þessum bíl hefur Porsche hannað forrit, eða „app“, fyrir snjallsíma þar sem sjá má stöðu rafhleðslunnar, hversu langt má aka á henni eingöngu og þar má einnig stjórna hleðslutíma hans og hversu heitan ökumaður vill hafa bílinn að innan er í hann er komið. Reynsluökumaður Fréttablaðsins og
Vísis mun reynsluaka þessum bíl í byrjun desembermánaðar í Þýskalandi og verður umfjöllun um hann sjáanleg í blaðinu þann mánuðinn.






×