Tónlist

Ítalskur píanósnillingur spilar í Hörpu

Hrund Þórsdóttir skrifar
Tónleikarnir tilheyra tónleikaröð heimspíanista sem hóf göngu sína skömmu eftir opnun Hörpu vorið 2011 og mun Benedetto leika verk eftir Schumann og Brahms. „Schumann var mjög ungur þegar hann samdi þessa tónlist en Brahms mjög gamall. Schumann uppgötvaði hann og greiddi götuna fyrir feril hans. Það eru mjög sterk tengsl á milli þeirra tveggja, ekki bara í gegnum tónlistina heldur einnig líf þeirra,“ segir Benedetto.

Hann vakti heimsathygli þegar hann hlaut bronsverðlaun í alþjóðlegu Van Cliburn píanókeppninni árið 1989 en síðan hefur hann unnið til fjölda verðlauna. Þá á hann sæti í dómnefndum margra virtra alþjóðlegra píanókeppna. Hann kann vel að meta Hörpuna. „Reyndar finnst mér hún mun betri en margar evrópskar tónleikahallir sem haldið er á lofti,“ segir hann.

Tónlistarstjóri Hörpunnar segir Benedetto meðal þeirra píanóleikara sem oftast leika einleik með hljómsveitum um allan heim. „Það er mjög gaman að fá hann til landsins í fyrsta skipti. Við erum að byggja hérna upp tónleikaröð til framtíðar þar sem við ætlum að kynna bestu píanista heimsins,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri í Hörpu. „Þetta verða mjög fallegir og rómantískir tónleikar og ég lofa góðri stund.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.