Bílar

Mikil bílasala í Bandaríkjunum

Finnur Thorlacius skrifar
BMW seldi 45% fleiri bíla í ágúst nú en í fyrra
BMW seldi 45% fleiri bíla í ágúst nú en í fyrra
Hrópandi ósamræmi er í bílasölu í Evrópu og Bandaríkjunum þessi misserin. Á meðan salan í Evrópu nær sífellt nýjum lægðum er salan vestanhafs sívaxandi. Bílasala í ágúst í Bandaríkjunum var mjög mikil og hún gæti náð 16 milljónum bíla á þessu ári, sem er talsvert meira en spáð hafði verið við upphaf ársins.

Margir bílaframleiðendur náðu frábærum árangri og juku gríðarlega við söluna miðað við ágúst í fyrra. Þannig seldust 45% fleiri BMW og Subaru bílar, 40% fleiri Jaguar/Land Rover bílar og 37% fleiri Buick og Cadillac.

Japönsku framleiðendunum gekk almennt vel. Honda jók við sig um 29% og Mitsubishi um 28%, Mazda 26%, Nissan 24%, Lexus 23% og Toyota 22%. Síður gekk hjá þeim S-kóresku, en Hyundai náði samt 8% vexti og Kia 4%.

Vöxtur Audi var 22%, Mercedes 15% og Porsche 10%. Stóru bandarísku framleiðendurnir GM, Ford og Chrysler náðu þokkalegum vexti, GM um 15% og Ford og Chrysler 12%. Aðeins voru tveir bílaframleiðendur sem upplifðu minni sölu í ágúst nú en í fyrra, þ.e. Volkswagen með 2% minni sölu og Volvo 12%.

Stærsti bílasalinn í Bandaríkjunum í þessum nýliðna mánuði er sem fyrr General Motors með 275,847 bíla, Toyota í öðru með 231,537 og Ford með 221,270.






×