Sport

Aníta aðeins frá sínu besta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aníta á HM 17 ára og yngri í sumar.
Aníta á HM 17 ára og yngri í sumar. Nordicphotos/Getty
Aníta Hinriksdóttir úr ÍR hafnaði í áttunda sæti í 800 metra hlaupi á Demantamóti í Stokkhólmi í kvöld. Aníta var nokkuð frá sínu besta en hún hljóp á 2:02,17 mínútum.

Aníta var yngsti keppandinn af þeim tíu sem hlupu í kvöld. ÍR-ingurinn hljóp á fyrstu brautinni en á öðrum brautum voru margar af fljótustu 800 metra hlaupurum heimsins. Þeirra á meðal Eunice Sum frá Kenía sem varð heimsmeistari í greininni á dögunum í Moskvu.

Svo fór að Sum kom fyrst í mark eftir æsilegan endasprett við Alysiu Montano frá Bandaríkjunum. Keníukonan hljóp á 1:58,85 mínútum en sú bandaríska á 1:58,96 mínútum. Malika Akkaoui frá Marokkó varð þriðja á 1:59,74 mínútum.

Aníta kom sem fyrr segir áttunda í mark á tímanum 2:02,17 mínútum. Íslandsmet hennar í greininni er 2:00,49 mínútur.

Það var mikill heiður fyrir Anítu að fá boð um að keppa á mótinu í Stokkhólmi í kvöld. Aníta, sem varð heimsmeistari í flokki 17 ára og yngri og Evrópumeistari í flokki 19 ára og yngri, hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína á hlaupabrautinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×