Sport

Bolt að nálgast fyrra form

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Usain Bolt hljóp á 9,85 sekúndum á Demantamóti sem fór fram á Ólympíuleikvanginum í Lundúnum í gær.

Bolt er núverandi heimsmethafi í 100 m og 200 m hlaupi og var að keppa í fyrsta sinn á leikvanginum síðan á leikunum í Lundúnum í fyrra, þar sem hann vann gull í báðum greinum.

Aðeins Tyson Gay hefur hlaupið hraðar á þessu ári en hann féll nýlega á lyfjaprófi og því fær Bolt tímann sinn skráðan sem þann besta á árinu.

Bolt sagði reyndar að hann hefði farið illa af stað í hlaupinu. „Það var hræðilegt. Ég held að ég sé bara ryðgaður og að þetta komi með því að taka þátt í fleiri hlaupum. Ég fæ nokkur hlaup á HM í Moskvu og þá kemur þetta,“ sagði Bolt eftir keppnina í gær.

„Ég var annars nokkuð stressaður í dag og það í fyrsta sinn í langan tíma. Ég vissi að það yrði mikið af fólki hér og þegar ég sá að leikvangurinn var fullur fann ég enn fyrir sömu orkunni og á Ólympíuleikunum í fyrra. Ég var því nokkuð taugaóstyrkur en ég elska orkuna hér og elska að keppa hér.“

Bandaríkjamaðurinn Michael Rodgers varð annar á 9,98 sekúndum og Nesta Carter frá Jamaíku, sem á næstbesta tíma ársins varð þriðji.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×