Bílar

Forstjóri Toyota fær lægstu launin fyrir besta árangurinn

Finnur Thorlacius skrifar
Akio Toyoda forstjóri Toyota
Akio Toyoda forstjóri Toyota
Forstjórinn með viðeigandi nafnið, Akio Toyoda, hjá Toyota er með lægstu laun 5 stærstu bílaframleiðendanna. Þrátt fyrir það skilaði fyrirtæki hans mesta hagnaði allra bílaframleiðenda í fyrra. Svo rammt kveður við að laun Toyoda eru aðeins tíundi hluti launa forstjóra þess sem hæst hefur launin.

Hlutabréf í Toyota hafa hækkað um 28% í ár svo hluthafar í Toyota ættu að vera ánægðir með störf Toyoda og gætu því umbunað honum betur. Til samanburðar hafa hlutabréf í Volkswagen lækkað um 11%, GM hækkað um 12%, Daimler hækkað um 12% og Ford hækkað um 18% á árinu. Þessi fjögur bílafyrirtæki fylla hóp þeirra 5 stærstu með Toyota.

Forstjórinn Akio Toyoda hefur ekki glímt við nein smávandamál síðan hann tók við árið 2009, eða stóra jarðskjálftann í Japan sem fór illa með Toyota og endurkallanir á mörgum milljónum Toyota bíla vegna galla. Samt hefur hann komið Toyota aftur á stall sem stærsti bílaframleiðandinn sem skilar mestum hagnaði til eigenda sinna.

Í sjálfu sér er Toyoda á ágætum launum og hækkaði um 35% í fyrra frá árinu 2011, sem mörgum þætti ágætt. Flestir vilja meina að hinir stóru forstjórarnir séu stórlega yfirlaunaðir og laun þeirra séu út í hött og í engum takti við raunveruleikann. Til dæmis voru laun launahæsta forstjórans í fyrra, Alan Mulally hjá Ford 21 milljón dollarar, eða 2.583 milljónir króna og verður mörgum óglatt við þá tölu. 







×