Íslenski boltinn

Breiðablik hélt öðru sætinu | Myndir og myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Breiðablik vann sannfærandi 3-1 sigur á ÍBV í toppslag í Pepsi-deild kvenna og heldur því í við Stjörnukonur á toppi deildarinnar.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í leiknum en það voru þó gestirnir úr Eyjum sem komust yfir þegar að Shaneka Gordon komst ein inn fyrir á 22. mínútu og afgreiddi knöttinn snyrtilega í fjærhornið.

Breiðablik jafnaði svo metin þegar að Rosie Sutton varð fyrir því óláni að skalla fyrirgjöf Rakelar Hönnudóttur í eigið mark á 35. mínútu.

Rakel var svo sjálf að verki fimm mínútum síðar og kom Blikum yfir með umdeildu marki. Hún skoraði af stuttu færi en virtist hafa lagt boltann fyrir sig með höndinni. Markið var engu að síður dæmt gilt þrátt fyrir mótmæli Eyjamanna.

Það var svo fyrrum leikmaður ÍBV, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, sem innsiglaði 3-1 sigur Breiðabliks með laglegu skoti úr teignum eftir sendingu Ingibjargar Sigurðardóttur sem kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik.

Breiðablik er því komið með átján stig, jafn mörg og Stjarnan sem á leik til góða. ÍBV situr eftir í þriðja sæti með þrettán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×