Íslenski boltinn

Stjarnan og Breiðablik í sérflokki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Tvö mörk seint í leiknum tryggðu Stjörnunni 2-0 útisigur á Valskonum í stórleik 5. umferðar Pepsi-deildar kvenna í kvöld. Breiðablik vann öruggan útisigur á Aftureldingu.

Leikur Vals og Stjörnunnar var jafn og spennandi en áhorfendur þurftu að bíða í áttatíu mínútur eftir fyrsta markinu. Þá skoraði Danka Podovac með skoti úr teignum en Danka hefur farið mikinn með Stjörnunni í upphafi móts.

Skömmu síðar byggðu Stjörnukonur upp fína sókn. Fyrirgjöf Rúnu Sifjar Ámundadóttur rataði á kollinn á varamanninum Megan Manthey sem skallaði boltinn af krafti í netið.

Mörkin og færin úr leiknum má sjá hér.

Stjarnan hefur unnið alla sína fimm leiki í deildinni og aðeins fengið á sig eitt mark. Valskonur geta verið svekktar enda áttu þær sín færi í leiknum en tókst ekki að nýta þau.

Stjarnan hefur 15 stig á toppi deildarinnar en Valskonur hafa byrjað mótið illa og hafa aðeins fimm stig.

Breiðablik eltir Stjörnuna eins og skugginn en liðið vann góðan útisigur á Aftureldingu. Breiðablik hefur einnig 15 stig í deildinni. Þá nældu nýliðar HK/Víkings sér í sín fyrstu stig í 2-2 jafntefli gegn FH.

Önnur úrslit í kvöld

Afturelding - Breiðablik 0-3

0-1 Aldís Kara Lúðvíksdóttir (31.), 0-2 Rakel Hönnudóttir (18.), 0-3 Berglind Björg Þorvaldsdóttir (68.)

HK/víkingur - FH 2-2

1-0 Sjálfsmark (8.), 1-1 Guðrún Björg Eggertsdóttir (14.), 1-2 Ashley Hincks (51.), 2-2 Karen Sturludóttir (68.)

Upplýsingar um markaskorara frá Úrslit.net.

Úr leiknum á Hlíðarenda í kvöld.Mynd/Valli
Embla Grétarsdóttir á eitthvað vantalað við Gunnar Sverri Gunnarsson dómara á Hlíðarenda í kvöld.Mynd/Valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×