Íslenski boltinn

Tvö mörk á fyrsta hálftímanum dugðu Stjörnunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir.
Harpa Þorsteinsdóttir. Mynd//Valli
Stjarnan vann 2-1 sigur á Þór/KA í 2. umferð Pepsi-deildar kvenna í fótbolta í kvöld en leikurinn fór fram á Þórsvelli á Akureyri. Íslandsmeistarar Þór/KA eru því bara með eitt stig eftir tvo fyrstu leiki sína í titilvörninni en Stjarnan er aftur á móti með fullt hús.

Harpa Þorsteinsdóttir skoraði þrennu í sigri Stjörnunnar í fyrstu umferðinni og hún kom að báðum mörkum liðsins í kvöld. Harpa skoraði fyrra markið og lagði upp það síðara. Stjörnukonur voru miklu betri í fyrri hálfleiknum en norðankonur léku mun betur í seinni hálfleiknum.

Harpa fékk tvö mjög góð færi á upphafsmínútunum, fyrst varði Helena Jónsdóttir frá henni en svo skallaði Harpa í slá eftir fyrirgjöf frá Rúnu Sif Stefánsdóttur. Harpa skoraði síðan fyrsta markið á 11. mínútu þegar hún kom boltanum inn fyrir línuna af stuttu færi eftir að Ásgerður Stefanía Baldursdóttir skallaði áfram hornspyrnu frá Rúnu Sif Stefánsdóttur.

Elva Friðjónsdóttir bætti við öðru marki á 27. mínútu leiksins eftir flotta stoðsendingu frá Hörpu sem hafði unnið boltann af varnarmönnum Þór/KA.

Tahnai Annis átti skot í slá á upphafsmínútum seinni hálfleiksins og Mateja Zver minnkaði muninn á 65. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Kayle Grimsley. Nær komust heimastúlkur ekki og Stjarnan fagnaði mikilvægum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×