Íslenski boltinn

Nýliðarnir skotnir niður á jörðina í Eyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaneka Jodian Gordon.
Shaneka Jodian Gordon. Mynd/Valli
Nýliðar HK/Víkings voru nálægt því að vinna Breiðablik í 1. umferð Pepsi-deildar kvenna en þær áttu ekki möguleika í öðrum leik sínum í Vestmannaeyjum í kvöld. Heimastúlkur í ÍBV komust í 3-0 eftir 11 mínútur og unnu að lokum fimm marka sigur, 7-2. Shaneka Jodian Gordon skoraði þrennu fyrir ÍBV.

Shaneka Jodian Gordon skoraði tvö fyrstu mörk leiksins, á 7. og 9. mínútu, og Rosie Sutton bætti síðan við þriðja markinu á 11. mínútu. Það var því strax ljóst í hvað stefndi.

Lið HK/Víkings var 3-1 yfir á móti Breiðabliki í 1.umferðinni þegar aðeins hálftími var eftir en tapaði leiknum 3-4. Hrunið á lokakaflanum í fyrstu umferð virtist greinilega há liðinu á fyrstu mínútum leiksins á Hásteinsvellinum.

 

Bryndís Jóhannesdóttir skoraði fjórða markið á 38. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Bryndís Hrönn Kristinsdóttir skoraði fimmta markið í upphafi seinni hálfleiks og Ana Maria Escribano Lopez var búin að koma ÍBV í 6-0 á 62. mínútu.

Íris Dóra Snorradóttir og Karen Sturludóttir náði að minnka muninn fyrir HK/Víking í lokin en inn á milli þeirra marka innsiglaði Shaneka Jodian Gordon þrennu sína. Eyjakonur fögnuðu þar með sínum fyrsta sigri í sumar og Eyjaliðin hafa unnið fyrstu þrjá heimaleiki sumarsins.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af úrslit.net.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×