Íslenski boltinn

Blikakonur áfram á sigurbraut í Pepsi-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel

Breiðablik er með fullt hús eftir þrjár umferðir í Pepsi-deild kvenna eftir 3-0 útisigur á nýliðum Þróttar í fyrsta leik þriðju umferðarinnar sem fór fram á Gervigrasvellinum í Laugardal í kvöld. Umferðin klárast síðan á morgun.

Fyrirliðinn Greta Mjöll Samúelsdóttir kom Blikum á bragðið með fyrsta markinu á 7. mínútu og í seinni hálfleiknum bættu svo þær Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Björk Gunnarsdóttir við mörkum. Allar þrjár hafa nú skorað tvö mörk í fyrstu þremur leikjunum.

Það vakti athygli að Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, sem tryggði Breiðablik 1-0 sigur á Val með frábæru marki í 2. umferðinni, var á bekknum í leiknum í kvöld alveg eins og landsliðskonan Rakel Hönnudóttir. Það er greinilega mikil breidd í Blikaliðinu í sumar og mikil samkeppni um sæti í liðinu.

Breiðablik vann 4-3 endurkomusigur á HK/Víkingi í 1. umferðinni og fylgdi því eftir með að vinna 1-0 sigur á Val í stórleik síðustu umferðar.

Stjarnan og Selfoss unnu einnig tvo fyrstu leiki sína í Pepsi-deildinni í ár en eiga ekki leik fyrr en á morgun. Selfoss fær þá Aftureldingu í heimsókn en Stjarnan tekur á móti FH.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×