Körfubolti

NBA: Brooklyn tryggði sér oddaleik - Golden State áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry fagnar sigrinum í nótt.
Stephen Curry fagnar sigrinum í nótt. Mynd/AP
Golden State Warriors er komið áfram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar eftir 92-88 sigur á Denver Nuggets í nótt. Brooklyn Nets tryggði sér oddaleik með öðrum sigri sínum í röð á Chicago Bulls en liðin berjast um tækifærið til að mæta meisturum Miami Heat í næstu umferð.

Deron Williams, Joe Johnson og Brook Lopez skoruðu allir 17 stig þegar Brooklyn Nets vann 95-92 útisigur á Chicago Bulls en Brooklyn jafnaði þar með einvígið í 3-3. Bulls komst í 3-1 í einvíginu en lék í nótt án lykilmannanna Luol Deng og Kirk Hinrich og munaði mikið um það. Marco Belinelli skoraði 22 stig fyrir Chicago.

Leikmenn Miami Heat bíða því áfram rólegir því það ræðst ekki fyrr en eftir oddaleikinn í Brooklyn á laugardaginn hvort liðið verður mótherji meistaranna í næstu umferð.

Golden State Warriors tókst hinsvegar að klára einvígið sitt á móti Denver Nuggets og vann 92-88 heimasigur í sjötta leik liðanna. Stephen Curry var með 22 stig og 8 stoðsendingar og ástralski miðherjinn Andrew Bogut bætti við 14 stigum of 21 frákasti.

Mark Jackson, þjálfari Golden State Warriors, er að gera flotta hluti með lið sitt sem lét það ekki stoppa sig að missa stjörnuleikmanninn David Lee í meiðsli í fyrsta leik einvígisins. Denver náði hinsvegar ekki að fylgja eftir frábærum endaspretti í deildarkeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×