Körfubolti

NBA í nótt: Paul var hetja Clippers | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Áhorfendur fagna eftir sigurkörfu Chris Paul í nótt.
Áhorfendur fagna eftir sigurkörfu Chris Paul í nótt. Mynd/AP
Chris Paul skoraði sigrukörfu LA Clippers gegn Memphis á lokasekúndu annars leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta. Clippers er þar með komið með 2-0 forystu í einvíginu.

Clippers vann tveggja stiga sigur, 93-91, en sigurinn var þó ekki tryggður fyrr en að dómarar staðfestu, eftir að hafa skoðað myndbandsupptökur, að Paul hefði skorað körfuna áður en leiktíminn rann út.

Svo reyndist vera en 0,1 sekúnda var eftir á klukkunni þegar boltinn fór í körfuna. Það var ekki nægur tími fyrir Memphis að koma skoti að körfunni. Myndband af sigurkörfunni má sjá hér neðst í fréttinni.

Paul var með 24 stig og níu stoðsendingar en Blake Griffin var með 21 stig og átta fráköst. Paul var sérstaklega öflugur á lokakaflanum en hann skoraði til að mynda átta stig í röð undir lok leiksins.

Mike Conley skoraði 28 stig fyrir Memphis, þar af tíu í fjórða leikhlutanum.

Einn annar leikur fór fram í úrslitakeppninni í nótt. Chicago vann Brooklyn, 90-82, og jafnaði þar með metin í 1-1 í rimmu liðanna.

Carlos Boozer var með þrettán stig og tólf fráköst og Joakim Noah harkaði af sér meiðsli og setti niður mikilvægar körfur í fjórða leikhluta.

Brook Lopez var með 21 stig fyrir Brooklyn en skotnýting liðsins var slæm í nótt, sérstaklega utan þriggja stiga línunnar þar sem liðið nýtti fjögur af 21 skoti sínu.

Næsti leikur fer fram í Chicago.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×