Körfubolti

NBA í nótt: Lakers vann en Miami tapaði | Carmelo með 50 stig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anthony fagnar með félögum sínum.
Anthony fagnar með félögum sínum. Nordic Photos / Getty Images
Þrír leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en besta lið deildarinnar, meistarar Miami Heat, töpuðu fyrir góðu liði New York.

New York vann, 102-90, og þar með sinn níunda sigur í röð en Carmelo Anthony fór á kostum í leiknum og skoraði 50 stig. Það er metjöfnun hjá honum sjálfum. Anthony nýtti alls átján af 26 skotum sínum utan af velli.

Miami var án þeirra LeBron James, Dwayne Wade og Mario Chalmers sem eiga allir við smávægileg meiðsli að stríða. Chris Bosh var stigahæstur í fjarveru þeirra með 23 stig.

New York er greinilega með gott tak á Miami því liðið hefur unnið alls þrjár af fjórum viðureignum liðanna á tímabilnu.

Staða Miami er þó góð. Liðið er þegar öruggt með efsta sæti Austurdeildarinnar og á góðri leið með að tryggja sér heimavallarrétt út alla úrslitakeppnina.

LA Lakers vann Dallas, 101-81. Kobe Bryant náði þrefaldri tvennu í nítjánda sinn á ferlinum en hann var með 23 stig, ellefu fráköst og ellefu stoðsendingar.

Lakers er enn í níunda sæti Vesturdeildarinnar en með jafnan árangur og Utah sem er í áttunda sæti. Fram undan er spennandi barátta þessara liða um síðasta sætið í úrslitakeppninni.

Þá vann Washington sigur á Chicago, 90-86, þar sem John Wall var með 27 stig, níu stoðsendingar og átta fráköst fyrir Washington.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×