Körfubolti

NBA í nótt: Góð endurkoma hjá Chicago

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP
Chicago Bulls vann góðan sigur á Brooklyn Nets, 92-90, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en þá fóru þrír leikir fram.

Nets byrjaði þó miklu betur í leiknum og náði mest sextán stiga forystu. En Chicago náði að koma til baka og tryggja sér sigur.

Carlos Boozer átti stórleik og skoraði 29 stig auk þess að taka átján fráköst. Það var þó Nate Robinson sem tryggði sínum mönnum sigurinn með körfu 22 sekúndum fyrir leikslok.

Chicago var þó án fimm sterkra leikmanna í leiknum í nótt en liðið er nú í fimmta sæti Austurdeildarinnar.

Deron Williams var með 30 stig og tíu stoðsendingar fyrir Nets í leiknum. Brook Lopez var með 28 stig en klikkaði á tveimur skotum á lokamínútunni auk þess að tapa boltanum einu sinni.

Denver vann Dallas, 95-94, og þar með sinn nítjánda sigur í röð á heimavelli. Corey Brewer var með 23 stig.

Denver varð þó fyrir áfalli í leiknum þar sem að Danilo Gallinari fór meiddur af velli í öðrum leikhluta. Óttast var að um alvarleg hnémeiðsli væri að ræða.

Oklahoma City vann San Antonio, 100-88. Russell Westbrook skoraði 27 stig fyrir Oklahoma City og Kevin Durant 25.

Þetta var uppgjör tveggja efstu liða í Vesturdeildinni en San Antonio heldur þó naumri forystu á toppnum. Liðið hefur unnið 56 leiki en Oklahoma City 55.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×