Körfubolti

NBA í nótt: Howard með 39 stig gegn gamla félaginu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwight Howard í leiknum í nótt.
Dwight Howard í leiknum í nótt. Mynd/AP
Dwight Howard var öflugur í sigri LA Lakers og Miami vann sinn nítjánda leik í röð í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Lakers vann Orlando, 106-97, og skoraði Howard 39 stig í leiknum auk þess að taka sextán fráköst. Howard tók reyndar 39 vítaköst í leiknum og nýtti 25 þeirra.

Howard kom til Lakers í sumar frá Orlando og þetta var hans fyrsti leikur þar í borg eftir vistaskiptin. Hann fékk ekkert sérstakar móttökur við endurkomuna en áhorfendur bauluðu duglega á hann.

Þetta var fjórði sigur Lakers í röð og heldur því liðið áttunda sætinu í Vesturdeildinni.

Miami vann Atlanta, 98-81, og þar með sinn nítjánda leik í röð. LeBron hafði hægt um sig og skoraði fimmtán stig en þeir Chris Bosh og Mario Chalmers voru með fjórtán hvor.

Þetta er fimmta lengsta sigurganga frá upphafi NBA-deildarinnar en liðið mætir næst Philadelphia á útivelli í kvöld.

Minnesota vann San Antonio, 107-83, þar sem Ricky Rubio náði sinni fyrstu þreföldu tvennu á ferlinum. Hann skoraði 21 stig, tók þrettán fráköst og gaf tólf stoðsendingar.

Tim Duncan og Kawhi Leonard voru hvíldir í liði San Antonio sem er þó enn á toppi Vesturdeildarinnar.

Úrslit næturinnar:

Charlotte - Boston 100-74

Orlando - LA Lakers 97-106

Cleveland - Washington 95-90

Brooklyn - New Orleans 108-98

Miami - Atlanta 98-81

Milwaukee - Dallas 108-115

Minnesota - San Antonio 107-83

Portland - Memphis 97-102

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×