Körfubolti

NBA í nótt: San Antonio slapp með sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP
San Antonio Spurs vann nauman sigur á Dallas, 92-91, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Dallas átti möguleika á að tryggja sér sigurinn á lokasekúndu leiksins en þriggja stiga skot Vince Carter skoppaði af hringnum.

Þetta var sjötti leikur San Antonio í röð án Tony Parker sem hefur verið frá vegna meiðsla. Liðið tapaði boltanum fimmtán sinnum í leiknum og skotnýting utan af velli var aðeins 44 prósent.

Tim Duncan skoraði 28 stig fyrir San Antonio og tók þar að auki nítján fráköst. Dirk Nowitzky skoraði 21 stig fyrir Dallas og tók ellefu fráköst.

San Antonio er í efsta sæti Vesturdeildarinnar og Dallas í því tíunda en átta efstu komast í úrslitakeppnina í vor. San Antonio hefur þó átt erfitt uppdráttar í fjarveru Parker en slapp með skrekkinn í nótt.

Einn annar leikur fór fram í deildinni í nótt. Portland vann New York á heimavelli, 105-90.

Damien Lillard skoraði 26 stig og gaf tíu stoðsendingar og þá var LaMarcus Aldridge með 22 stig og tíu fráköst.

JR Smith skoraði 33 stig fyrri New York og Kenyon Martin tólf. New York er í þriðja sæti Austurdeildarinnar en tapað nú þremur leikjum í röð. Meiðsli hafa plagað marga leikmenn liðsins.

Portland er í ellefta sæti Vesturdeildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×