Körfubolti

NBA: Denver-liðið óstöðvandi í þunna loftinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Oklahoma City Thunder og Denver Nuggets unnu leiki sína í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en þá fóru aðeins tveir leikir fram í deildinni.

Denver Nuggets liðið er gríðarlega öflugt á heimavelli sínum í fjöllunum og fagnaði sínum tólfta heimasigri í röð með því að vinna Los Angeles Clippers 107-92 í nótt. Denver er búið að vinna 27 af 30 heimaleikjum sínum í vetur en þetta var auk þess sjöundi sigurleikur liðsins í röð.

Ty Lawson var með 21 stig og 11 stoðsendingar fyrir Denver og Danilo Gallinari skoraði 20 stig og gaf 6 stoðsendingaer. Alls brutu sjö leikmenn liðsins tíu stiga múrinn en gríðarlega breidd hjálpar liðinu mikið þegar hin liðin eru að reyna að ná andanum í þunna loftinu.

Matt Barnes var stigahæstur hjá Clippers með 19 stig og Blake Griffin skoraði 17 stig. Chris Paul var með 16 stig og 10 stoðsendingar. Clippers-liðið var búið að vinna fimm útileiki í röð fyrir þennan leik í nótt.

Kevin Durant tryggði Oklahoma City Thunder 95-94 útisigur á New York Knicks í Madison Square Garden en sigurstigið kom á vítalínunni þegar enn voru 1 mínútu o 38 sekúndur eftir af leiknum. Hvorugt liðanna náði að bæta við stigum.

Durant skoraði 34 stig í leiknum auk þess að taka 8 fráköst og gefa 6 stoðsendingar og Russell Westbrook var með 21 stig. 6 fráköst og 5 stoðsendingar í þessum þriðja sigri Thunder-liðsins í röð. J.R. Smith skoraði 36 stig fyrir New York en liðið lék án Carmelo Anthony sem missti af sínum öðrum leik í röð vegna meiðsla.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:

New York Knicks - Oklahoma City Thunder 94-95

Denver Nuggets - Los Angeles Clippers 107-92

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×