Sport

Mayweather skrifaði undir risasamning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hnefaleikakappinn Floyd Mayweather hefur skrifað undir samning sem gæti gert hann að ríkasta íþróttamanni heims á næstu árum.

Mayweather skuldbatt sig til að berjast sex sinnum á næstu 30 mánuðum en samningurinn sem hann gerði snýr að sýningarrétti af þeim bardögum í sjónvarpi.

„Samningurinn er sá langstærsti sem hefur verið gerður hingað til í heimi hnefaleikanna," segir í yfirlýsingu sem umboðsskrifstofan sem er með Mayweather á sínum snærum sendi frá sér.

Engar upphæðir hafa verið gerðar opinberar en næsti bardagi hans verður gegn Robert Guerrero þann 4. maí næstkomandi. Það verður fyrsti bardagi hans síðan hann vann Miguel Cotto í maí síðastliðnum.

Mayweather hefur nú barist í 43 bardögum á sínum atvinnumannaferli og unnið þá alla. Hann var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir heimilisofbeldi á síðsta ári en sleppt úr haldi þann 3. ágúst.

Mayweather hefur hingað til verið með samning við HBO-sjónvarpsstöðina en nýi samningurinn er við Showtime.

„Ef efnisatriði samningsins ganga upp og bardagarnir sex fara allir fram, verður þetta stærsti samningur allra tíma í einstaklingsíþróttum," segir í yfirlýsingunni.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×