Körfubolti

Parker leyndi meiðslum fyrir Popovich

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gregg Popovich og Tony Parker
Gregg Popovich og Tony Parker Mynd/Nordic Photos/Getty
Gregg Popovich, þjálfari San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfubolta, hikar ekki við að hvíla stjörnuleikmenn sína þegar þeir glíma við smámeiðsli eða að honum þykir álagið vera of mikið. Tony Parker veit það manna best en vill eins og flestir spila alla leiki. Hann ákvað því að leyna meiðslum fyrir Popovich.

Parker fékk högg á olnbogann eftir samstuð við Chris Paul hjá Los Angeles Clippers en Popovich vissi ekki af meiðslunum fyrr en eftir tap liðsins í framlengdum leik á móti Golden State Warriors.

Parker var þá farinn að finna meira fyrir meiðslunum og sá að þau voru farin að hafa áhrif á skotið hans. Parker sem er orðinn þrítugur skoraði 18 stig í leiknum en hitti aðeins úr 7 af 18 skotum sínum.

Popovich hvíldi Parker í næsta leik þegar liðið vann 98-87 sigur á Phoenix Suns á sunnudaginn en ætti að vera orðinn góður fyrir annan leik við Suns-liðið á morgun. Það verður fyrsti heimaleikur Spurs síðan 30. janúar.

San Antonio Express-News skrifaði um málið og ræddi við Gregg Popovich. „Hann var að reyna að leika of mikla hetju og hugsaði þetta ekki til enda," sagði Popovich.

Tony Parker tjáði sig líka um meiðslin. „Ég sagði við Pop: Þú þekkir mig, ég hef verið hér í tíu ár og ég kvarta ekki undan meiðslum. Það er fullt af hlutum sem ég tala ekki um við þig," sagði Tony Parker en bætti svo við: „Hann svaraði að bragði. Þegar kemur að svona hlutum þá verður þú að láta mig vita," sagði Parker.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×