Körfubolti

LeBron með 71 prósent skotnýtingu í síðustu fimm leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Mynd/Nordic Photos/Getty
LeBron James hefur verið algjörlega óstöðvandi í síðustu leikjum með Miami Heat í NBA-deildinni í körfubolta eins og áhorfendur Stöðvar 2 Sport fengu að sjá í gær þegar James fór fyrir sigri Miami á móti Kobe Bryant og félögum í Los Angeles Lakers.

LeBron James hefur nú verið með 30 stig og að minnsta kosti 60 prósent skotnýtingu í síðustu fimm leikjum sínum. Hann er aðeins þriðji maðurinn í sögu NBA til að ná því (Moses Malone með Houston 1981-82 og Adrian Dantley með Utah 1979-80) og ennfremur fyrsti maðurinn í sögu Miami Heat til að brjóta 30 stiga múrinn í fimm leikjum í röð.

LeBron hefur nýtt 71,4 prósent skota sinna í þessum fimm leikjum en hann er þar með 84 prósent nýtingu inn í teig (37 af 44) og 60 prósent nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna (9 af 15).

Dwyane Wade skoraði líka 30 stig og hitti úr 65 prósent skota sinna á móti Lakers og urðu þeir aðeins fjórðu liðsfélagarnir í sögu NBA-deildarinnar til þess að ná í því í sama leiknum. Hinir eru: Walt Bellamy og Gus Johnson (Bullets 1964), Alex English og Dan Issel (Denver Nuggets 1982), og Mike Miller og Pau Gasol (Memphis Grizzlies 2007).



Síðustu fimm leikir LeBron James:

100-85 sigur á Toronto - 30 stig, 8 fráköst, 7 stoðsendingar, 63 prósent skotnýting (10 af 16)

99-94 sigur á Charlotte - 31 stig, 8 fráköst, 8 stoðsendingar, 93 prósent skotnýting (13 af 14)

114-108 sigur á Houston - 32 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar, 61 prósent skotnýting (11 af 18)

111-89 sigur á LA Clippers - 30 stig, 5 fráköst, 6 stoðsendingar, 82 prósent skotnýting (9 af 11)

107-97 sigur á LA Lakers - 32 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar, 67 prósent skotnýting (12 af 18)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×