Körfubolti

NBA í nótt: Irving fór á kostum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP
Kyrie Irving var í aðalhlutverki þegar að Cleveland vann afar óvæntan sigur á Oklahoma City í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Irving skoraði 35 stig í leiknum, þar af þrettán stig á síðustu þremur mínútum leiksins. Hann skoraði úr síðustu fimm skotum sínum í leiknum, þar af þriggja stiga körfu þegar 42 sekúndur voru eftir.

Kevin Durant var með 32 stig og Russell Westbrook 28 en Oklahoma City hefur verið eitt allra besta lið deildarinnar á tímabilinu - með bestan árangur allra liða á útivelli.

San Antonio Spurs vann sinn tíunda sigur í röð í deildinni en liðið mætti Washington í nótt og vann, 96-86.

Tony Parker var með nítján stig og Danny Green fimmtán. Tim Duncan meiddist á hné í öðrum leikhluta en liðsfélagar hans sögðu meiðslin ekki alvarleg eftir leik.

New York vann Sacramento, 120-81. Amare Stoudemire nýtti öll tíu skotin sín utan af velli og skoraði 21 stig. New York komst á 38-4 sprett í fyrri hálfleik og var sigurinn aldrei í hættu.

Houston vann Charlotte, 109-95, þar sem James Harden var með 21 stig, ellefu fráköst og ellefu stoðsendingar. Þetta var hans fyrsta þrefalda tvenna á ferlinum.

Golden State endurheimti Stephen Curry úr meiðslum og liðið vann góðan sigur á Phoenix á heimavelli, 113-93. Curry var með 29 stig en þetta var fjórði sigur Golden State í röð.

Úrslit næturinnar:

Atlanta - Chicago 76-93

New York - Sacramento 120-81

Cleveland - Oklahoma City 115-110

Houston - Charlotte 109-95

Minnesota - New Orleans 115-86

Milwaukee - Orlando 107-98

San Antonio - Washington 96-86

Portland - Utah 105-99

Golden State - Phoenix 113-93

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×