Körfubolti

Seattle-borg eignast NBA-lið á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Payton og Shawn Kemp voru stjörnuleikmenn Seattle Supersonics á sínum tíma.
Gary Payton og Shawn Kemp voru stjörnuleikmenn Seattle Supersonics á sínum tíma. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sacramento Kings er á leiðinni frá Sacramento-borg eftir að Maloof-fjölskyldan ákvað í gær að selja félagið til fjárfestingahóps frá Seattle-borg. Kóngarnir frá Sacramento gætu byrjað að spila heimaleiki sína í Seattle-borg frá og með næsta tímabili.

Chris Hansen fer fyrir þessum fjárfestingahópi frá Seattle sem borgar 525 milljónir dollara fyrir 65 prósenta hlut í Kings. Það er stefna Hansen og félaga að kaupa upp það sem eftir stendur en sá hluti (35 prósent) er í eigu minni hluthafa.

Hansen og fjárfestingahópurinn hefur verið að kaupa upp land í nágrenni Safeco Field, heimavelli hafnarbolta liðsins Seattle Mariners og CenturyLink Field, heimavelli NFL-liðsins Seattle Seahawks en þar er ætlun þeirra að byggja nýja körfuboltahöll.

Kings-liðið hefur haft aðsetur í Sacramento síðan að félagið flutti þangað frá Kansas City árið 1985. Seattle hefur ekki átt NBA-lið síðan Seattle SuperSonics fluttu til Oklahoma City árið 2008.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×