Körfubolti

NBA: Þrjú töp í röð hjá Clippers - Melo góður í Boston

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Los Angeles Clippers tapaði sínum þriðja leik í röð í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar liðið lá á móti Phoenix Suns. Carmelo Anthony var góður í langþráðum sigri New York Knicks í Boston og DeMar DeRozan skoraði magnaða sigurkörfu fyrir Toronto Raptors í Orlando.

Goran Dragic skoraði 19 af 24 stigum sínum í fyrri hálfleik þegar Phoenix Suns vann 93-88 sigur á Los Angeles Clippers. Phoenix hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína undir stjórn Lindsey Hunter. Marcin Gortat skoraði 15 stig fyrir Phoenix og þeir Luis Scola og Markieff Morris voru báðir með 14 stig. Jamal Crawford skoraði mest fyrir Los Angeles Clippers eða 21 stig en þetta var þriðja tap liðsins í röð. Leikstjórnandinn Chris Paul var ekki með og hefur misst af fimm af síðustu sjö leikjum liðsins.

Carmelo Anthony skoraði 28 stig þegar New York Knicks vann 89-86 útisigur á Boston Celtics en New York liðið var fyrir leikinn búið að tapa 11 leikjum í röð í Boston. Amar'e Stoudemire var með 15 stig og 9 fráköst á rúmum 20 mínútum, Jason Kidd skoraði 12 stig og Iman Shumpert var með 10 stig. Rajon Rondo var með 23 stig, 10 fráköst og 11 stoðsendingar og Paul Pierce skoraði 22 stig í fimmta tapi Boston liðsins í röð.

DeMar DeRozan tryggði Toronto Raptors 97-95 útisigur á Orlando Magic með magnaðri flautukörfu aðþrengdur varnarmönnum Magic-liðsins. DeRozan skoraði 22 stig í leiknum en Amir Johnson var með 21 stig og 10 fráköst. Toronto vann alla fjóra leiki liðanna í vetur. DeMar DeRozan skoraði 14 af 22 stigum sínum í fjórða leikhlutanum þar sem hann hitti úr 7 af 8 skotum sínum. Nikola Vucevic var með 19 stig og 14 fráköst hjá Orlando sem tapaði fjórða leiknum í röð og í fimmtánda sinn í sautján leikjum.

Úrslit leikja í NBA-deildinni í nótt:

Orlando Magic - Toronto Raptors 95-97

Boston Celtics - New York Knicks 86-89

Phoenix Suns - Los Angeles Clippers 93-88

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×