Körfubolti

NBA í nótt: Annað tap Miami í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP
Meistararnir í Miami Heat töpuðu sínum öðrum leik í röð er liðið mætti Portland í NBA-deildinni í körfubolta.

Portland vann nauman sigur, 92-90, þar sem miklu munaði um þriggja stiga körfu Wesley Matthews þegar um 30 sekúndur voru til leiksloka. Portland komst yfir og hékk á forystunni allt til loka.

LeBron James skoraði fimmtán stig í leiknum en hann hafði í síðustu 54 leikjum á undan skorað minnst 20 stig í hverjum leik.

Miami var mest með þrettán stiga forystu í leiknum en tapaði að lokum sínum fimmta leik í síðustu átta leikjum sínum.

Nicolas Batum var stigahæstur hjá Portland með 28 stig en LaMarcus Aldridge var með 20 stig og fimmtán fráköst. Chris Bosh var stigahæstur hjá Miami með 29 stig.

Indiana vann New York, 81-76, og þar með sinn tólfta leik í síðustu fimmtán. Paul George skoraði 24 stig, þar af sjö í 13-0 spretti í fjórða leikhluta.

JR Smith skoraði 25 stig fyrir New york en Carmelo Anthony var ekki með þar sem hann tók út leikbann.

Dallas vann Sacramento, 117-112, í framlengdum leik. OJ Mayo var með 24 stig og tíu fráköst en Vince Carter átti góða innkomu af bekknum og skoraði 23 stig.

Sacramento náði mest sautján stiga forystu í leiknum en Dallas kom til baka og kláraði leikinn í framlengingu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×