Körfubolti

NBA: Denver stöðvaði sigurgöngu LA Clippers - 45 stig Anthony ekki nóg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Sautján leikja sigurganga Los Angeles Clippers í NBA-deildinni í körfubolta endaði í nótt þegar liðið heimsótti Denver Nuggets. Það dugði ekki New York Knicks að Amare Stoudemire snéri aftur eða það að Carmelo Anthony skoraði 45 stig. Los Angeles Lakers tapaði einnig sínum leik í nótt og hefur nú aftur tapað fleiri leikjum en liðið hefur unnið.

Danilo Gallinari skoraði 17 stig og var einn af sex leikmönnum Denver Nuggets með tíu stig eða meira þegar liðið vann 92-78 sigur á Los Angeles Clippers. Clippers-liðið var búið að vinna 17 leiki í röð sem var lengsta sigurgangan í NBA-deildinni síðan að Boston Celtics vann 19 í röð í lok árs 2008. Kenneth Faried var með 14 stig og 11 fráköst í áttunda heimasigri Denver í röð og Andre Miller var með 12 stig og 12 stoðsendingar. Blake Griffin og Eric Bledsoe voru stigahæstir hjá Los Angeles Clippers með 12 stig hvor.

Portland Trail Blazers vann 105-100 sigur á New York Knicks í New York og það þrátt fyrir að Carmelo Anthony skoraði 45 stig fyrir Knicks og að Amare Stoudemire kom inn eftir meiðsli. Amare Stoudemire spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu og var með 6 stig og 1 fráköst á 17 mínútum. Nicolas Batum skoraði 26 stig fyrir Portland, Damian Lillard var með 12 stig og LaMarcus Aldridge bætti við 19 stigum og 14 fráköstum. J.R. Smith var með 28 stig og 11 fráköst hjá New York.

Jrue Holiday var með 26 stig og 10 stoðsendingar og Evan Turner bætti við 22 stigum og 13 fráköstum þegar Philadelphia 76ers vann 103-99 útisigur á Los Angeles Lakers. Lakers-liðið er þar með aftur dottið niður fyrir 50 prósent sigurhlutfall. Kobe Bryant skoraði 36 stig og Steve Nash var með 12 stig og 10 stoðsendingar.

Vince Carter skoraði 23 stig og þeir O.J. Mayo og Darren Collison voru báðir með 15 stig þegar Dallas Mavericks endaði sex leikja taphrinu með 103-94 sigri á Washington Wizards. Chris Kaman skoraði 12 stig og Shawn Marion var með 11 stig og 14 fráköst. Bradley Beal skoraði 22 stig fyrir Wizards-liðið.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:

Washington Wizards - Dallas Mavericks 94-103

New York Knicks - Portland Trail Blazers 100-105

Detroit Pistons - Sacramento Kings 103-97

New Orleans Hornets - Atlanta Hawks 86-95

Denver Nuggets - Los Angeles Clippers 92-78

Los Angeles Lakers - Philadelphia 76ers 99-103

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×