Körfubolti

NBA: New York stöðvaði sjö leikja sigurgöngu San Antonio

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Aðeins tveir leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. New York Knicks vann öruggan sigur á San Antonio Spurs og Minnesota Timberwolves sótti sigur til Denver.

Carmelo Anthony skoraði 23 stig og J.R. Smith var með 20 stig fyrir New York Knicks í 100-83 heimasigri á San Antonio Spurs. San Antonio var fyrir leikinn búið að vinna sjö leiki í röð.

Steve Novak var með 15 stig fyrir New York og Tyson Chandler bætti við 10 stigum og 14 fráköstum. Tim Duncan og Tony Parker létu sér báðir nægja að skora bara 11 stig fyrir Spurs-liðið í leiknum.

J.J. Barea skoraði 12 af 17 stigum sínum í fjórða leikhluta þegar Minnesota Timberwolves vann 101-97 útisigur á Denver Nuggets og það þrátt fyrir að Kevin Love gæti ekki spilað í lok leiksins vegna tognunar á fingri.

Denver Nuggets náði því ekki að fylgja því eftir þegar þeir enduðu 17 leikja sigurgöngu Los Angeles Clippers tveimur dögum áður. Rússinn Alexey Shved var með 17 stig og 5 stoðsendingar hjá Minnesota og þeir Luke Ridnour og Andrei Kirilenko skoruðu báðir 14 stig. Love var með 17 fráköst og 12 stig á aðeins 24 mínútum. Kosta Koufos og Ty Lawson skoruðu báðir 16 stig fyrir Denver.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×