Sport

Óttast að RGIII sé með slitið krossband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
RGIII, eins og hann er kallaður, meiðist í leiknum um helgina.
RGIII, eins og hann er kallaður, meiðist í leiknum um helgina. Mynd/AP
Robert Griffin þriðji, leikstjórnandi NFL-liðsins Washington Redskins, þarf að fara til sérfræðings í dag vegna hnémeiðsla.

Griffin er orðinn einn allra þekktasti íþróttamaður Bandaríkjanna eftir frábært tímabil með Washington. Hann er einn þeirra sem þykir líklegur til að verða valinn nýliði ársins og jafnvel besti sóknarmaður tímabilsins.

Hann fór með lið sitt í úrslitakeppnina þar sem Washington mátti reyndar þola tap fyrir Seattle strax í fyrstu umferðinni sem fór fram nú um helgina.

Washington komst reyndar í 14-0 forystu í leiknum en þá tóku hnémeiðsli Griffin sig upp og sóknarleikur liðsins hrundi. Griffin hélt áfram að spila en Seattle skoraði 24 stig í röð og fagnaði sigri.

Griffin þurfti svo að yfirgefa völlinn í fjórða leikhluta eftir að hnéð gaf sig endanlega. Þá strax var óttast að meiðslin væru alvarleg.

Griffin sleit krossband í þessu sama hné árið 2009 er hann spilaði með háskólaliði Baylor. Hann fór í segulómskoðun í gær og voru niðurstöðurnar ófullnægjandi, að sögn Mike Shanahan, þjálfara Redskins.

Shanahan sagði að gömul meiðsli villa oft fyrir í slíkum skoðunum og því þurfi Griffin að fara til sérfræðings. En ef krossbandið er slitið á ný er líklegt að hann þurfi að fara í aðgerð og verði af þeim sökum frá næstu 9-12 mánuðina. Nýtt tímabil hefst í september næstkomandi.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×