Jólin þín byrja Ólafur Þ. Stephensen skrifar 24. desember 2012 06:00 Í IKEA, segir sænski smásölurisinn. Einhvern tímann í lok október. Og hefur eitthvað til síns máls. Innkaup á jólaglingri og gjöfum með einkennilegum sænskum nöfnum eru partur af jólatilstandinu sem okkur finnst ómissandi. Þegar einhverjir vitleysingar kveikja í risastóru geitinni fyrir utan vitum við svo að hátíðin er virkilega farin að nálgast. Þjófstart á jólaundirbúningi og skreytingum, kaupæði, óhóf, ofát, yfirborðsmennska, innfluttir óþjóðlegir jólasiðir; af öllu þessu höfum við haft áhyggjur áratugum saman. Þetta er ekki það sem jólin snúast raunverulega um, hefur verið bent á. Samt er þetta allt saman fremur einkenni framþróunar þjóðfélagsins en merki um að við séum að týna jólahátíðinni í umbúðum og skrumi. Fólk hefur alltaf gert sér dagamun á jólum. Jólagjafirnar, sem vöktu sanna gleði þrátt fyrir að vera fábrotnar á mælikvarða nútímans, voru yfirleitt það bezta sem fólk hafði efni á einhvern tímann á síðustu öld. Og nánast hver einasta jólahefð og siður er innflutt, það er bara mismunandi langt síðan innflutningurinn átti sér stað. Alþjóðavæðing jólahefða er merki um samfélag sem er opið og reiðubúið að sækja sér fjölbreytt áhrif. Þótt vakin hafi verið athygli á þeirri dapurlegu staðreynd að fleiri en áður þurfi á aðstoð að halda við jólahaldið endurspeglar hún öðrum þræði breyttar kröfur og dregur hins vegar fram að það eru líka nógu margir tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að þeir sem minna hafa á milli handa geti haldið jól með sæmilegum brag. Staðreyndin er sú að þótt ytri umgjörð jólanna breytist, í takt við bættan efnahag og breytta menningarstrauma, er innihaldið það sama þegar allt kemur til alls. Og nánast ómögulegt að yfirgnæfa það með endurunnu ítölsku poppi, sænskum strágeitum og skvaldri markaðarins. Jólaboðskapurinn er sá sami, raunar óbreyttur síðastliðin tvö þúsund ár eða svo: „Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu." Margir sækja sína jólagleði beint í þetta fagnaðarerindi sem hljómar í kirkjum landsins og útvarpstækjum í kvöld. Aðrir fremur í samveru fjölskyldunnar, hefðirnar og hátíðleikann, þar sem öllu því bezta er tjaldað til. Svo mikið er víst að jólin þín byrja í hjartanu – eða, ef við viljum forðast gagnrýni frá fólki sem kann líffræði, á staðnum þar sem við geymum ást og náungakærleik, þakklæti, gjafmildi, friðsemd og fyrirheit um að verða ögn betri manneskja. Sá sem á þetta allt saman þarf strangt til tekið ekki allt dótið og umbúðirnar, þótt það þjóni vissulega sínum tilgangi, til að finna hinn sanna jólaanda. Gleðileg jól! Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun
Í IKEA, segir sænski smásölurisinn. Einhvern tímann í lok október. Og hefur eitthvað til síns máls. Innkaup á jólaglingri og gjöfum með einkennilegum sænskum nöfnum eru partur af jólatilstandinu sem okkur finnst ómissandi. Þegar einhverjir vitleysingar kveikja í risastóru geitinni fyrir utan vitum við svo að hátíðin er virkilega farin að nálgast. Þjófstart á jólaundirbúningi og skreytingum, kaupæði, óhóf, ofát, yfirborðsmennska, innfluttir óþjóðlegir jólasiðir; af öllu þessu höfum við haft áhyggjur áratugum saman. Þetta er ekki það sem jólin snúast raunverulega um, hefur verið bent á. Samt er þetta allt saman fremur einkenni framþróunar þjóðfélagsins en merki um að við séum að týna jólahátíðinni í umbúðum og skrumi. Fólk hefur alltaf gert sér dagamun á jólum. Jólagjafirnar, sem vöktu sanna gleði þrátt fyrir að vera fábrotnar á mælikvarða nútímans, voru yfirleitt það bezta sem fólk hafði efni á einhvern tímann á síðustu öld. Og nánast hver einasta jólahefð og siður er innflutt, það er bara mismunandi langt síðan innflutningurinn átti sér stað. Alþjóðavæðing jólahefða er merki um samfélag sem er opið og reiðubúið að sækja sér fjölbreytt áhrif. Þótt vakin hafi verið athygli á þeirri dapurlegu staðreynd að fleiri en áður þurfi á aðstoð að halda við jólahaldið endurspeglar hún öðrum þræði breyttar kröfur og dregur hins vegar fram að það eru líka nógu margir tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að þeir sem minna hafa á milli handa geti haldið jól með sæmilegum brag. Staðreyndin er sú að þótt ytri umgjörð jólanna breytist, í takt við bættan efnahag og breytta menningarstrauma, er innihaldið það sama þegar allt kemur til alls. Og nánast ómögulegt að yfirgnæfa það með endurunnu ítölsku poppi, sænskum strágeitum og skvaldri markaðarins. Jólaboðskapurinn er sá sami, raunar óbreyttur síðastliðin tvö þúsund ár eða svo: „Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu." Margir sækja sína jólagleði beint í þetta fagnaðarerindi sem hljómar í kirkjum landsins og útvarpstækjum í kvöld. Aðrir fremur í samveru fjölskyldunnar, hefðirnar og hátíðleikann, þar sem öllu því bezta er tjaldað til. Svo mikið er víst að jólin þín byrja í hjartanu – eða, ef við viljum forðast gagnrýni frá fólki sem kann líffræði, á staðnum þar sem við geymum ást og náungakærleik, þakklæti, gjafmildi, friðsemd og fyrirheit um að verða ögn betri manneskja. Sá sem á þetta allt saman þarf strangt til tekið ekki allt dótið og umbúðirnar, þótt það þjóni vissulega sínum tilgangi, til að finna hinn sanna jólaanda. Gleðileg jól!