Breytingar Þorsteinn Pálsson skrifar 1. desember 2012 08:00 Stjórnmálamenn og stjórnmálaskýrendur virðast á einu máli um að túlka yfirburða sigur Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum borgarstjóra, í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem ákall um breytingar. Það er án efa rétt ályktun. Hitt getur verið þyngri þraut að greina til hlítar hvers kyns breytinga megi vænta. Víst er að sjálfstæðismenn í Reykjavík vildu nýjan fulltrúa í leiðtogahóp flokksins. Stundum er nóg að tefla fram nýjum nöfnum til að endurvekja traust. Ástæðulaust er að gera lítið úr slíkum breytingum. En úrslitin segja ekkert um hvort þátttakendur í prófkjörinu hafi ætlað sér eitthvað annað eða talið þörf á því. Málefnaleg áhrif eru því á huldu. Spurningunni hvort Sjálfstæðisflokkurinn þrengist til hægri eða opnast nær miðjunni er ósvarað. Þó að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi ekki talað mikið um pólitísk stefnumál hefur hún sent skilaboð um pólitíska starfshætti. Boðskapur hennar í þeim efnum er: Samstarf og samvinna á breiðum grundvelli. Þetta fyrirheit er algjör andstæða við vinnulag formanna ríkisstjórnarflokkanna sem frá upphafi hefur byggst á átökum. Þeir hafa hafnað öllum málamiðlunum í átt að miðjunni og því síður yfir hana til borgaralegra viðhorfa. Í reynd yfirgáfu þeir strax norræna málamiðlunarlíkanið sem þeir kenndu sig við.Hvar byrjar samstarfspólitíkin? Ástæðan fyrir átakapólitík síðustu ára er ekki endilega sú að formenn ríkisstjórnarflokkanna elski fremur stríð en frið. Skýringin er miklu fremur hin að þeir eru ekki fúsir til að miðla málum og taka tillit til annarra pólitískra viðhorfa en þeirra sem liggja lengst til vinstri, að Evrópumálinu fráskildu. Þeir líta svo á að þjóðin hafi falið þeim að knýja þau fram með góðu eða illu. Þegar nýr frambjóðandi í leiðtogahópi Sjálfstæðisflokksins stendur andspænis því mikla verkefni að gera samvinnustjórnmál að veruleika á vettvangi þjóðmálanna snýst það um málamiðlanir sem lúta að grundvallar stefnumálum ólíkra flokka. Ella eru orðin tóm. Þess vegna má vænta þess að á næstunni muni flokkurinn gera grein fyrir því hvernig hann hyggst teikna upp sættir milli stríðandi afla. Viss hætta er á að samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks framlengi óbreyttar átakalínur með öfugum formerkjum. Samvinnustjórnmál þýða breiðara samstarf sem næði að minnsta kosti annað hvort til VG eða Samfylkingarinnar. Fyrsta verkefnið gæti verið að sýna samvinnustjórnmál í verki innan Sjálfstæðisflokksins. Eins og sakir standa eru Evrópumálin eina ágreiningsefnið. Að vísu kalla fáir á að ákvörðun þar um verði tekin nú. En margir vilja halda þeim möguleika opnum þegar að því kemur að ákveða framtíðar gjaldmiðil; hugsanlega á miðju næsta kjörtímabili. Að því leyti er þetta prófraun fyrir nýjan frambjóðanda í leiðtogahópnum að boðskapurinn um samvinnustjórnmál er líklegri til að hafa áhrif út á við hafi hann verið reyndur innanhúss fyrst. Eftir prófkjörið ættu sáttastjórnmál að vera áhrifaríkari en áður. Þverstæðan er sú að fyrstu yfirlýsingar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur benda ekki til að sáttapólitíkin eigi að ná til þessa máls. Nái hún ekki einu sinni til þess að halda Evrópumálunum opnum er rökrétt að ætla að fyrir liggi útfærð hugmynd um annan kost en evruna sem tryggi stöðugleika, samkeppnishæfni og sátt. Ella væri óráð að loka dyrum. Hverju breyta kosningarnar? Stuðningsmenn Samfylkingarinnar hafa ekki talið rétt að tefla mörgu nýju fólki fram við næstu kosningar. Á hinn bóginn fer þar fram uppgjör milli þeirra sem vilja viðhalda þröngri stöðu lengst til vinstri og hinna sem telja rétt að opna flokkinn í átt að miðjunni. Þar gætu því orðið pólitískar breytingar án nýrra liðsmanna. Árni Páll Árnason, reyndur þingmaður og útskúfaður ráðherra vegna frjálslyndra viðhorfa, fer fyrir þeim sem telja rétt að flokkurinn hverfi á ný að hefðbundinni jafnaðarstefnu. Greining hans í Silfri Egils um síðustu helgi á þeim efnahagslegu viðfangsefnum sem glíma þarf við var ábyrgt framlag til stjórnmálaumræðunnar. Óhætt er að draga þá ályktun að hann hafi þar opnað fyrir sáttapólitík. Það er eftirtektarvert nýmæli. Slái Sjálfstæðisflokkurinn hendinni á móti þeirri opnun gæti Samfylkingin hins vegar einangrast vegna Evrópumálanna; nema hún fórni þeim. Neyðist hún til þess er sennilegra að það gerist gagnvart VG og Framsóknarflokknum en Sjálfstæðisflokknum. Líkurnar á slíkri stjórn eru talsverðar. Þannig er enn hætta á að kosningarnar breyti málefnalega ekki öðru en að möguleikanum á nýrri mynt verði hafnað áður en hann kemur raunverulega upp. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðun Þorsteinn Pálsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Stjórnmálamenn og stjórnmálaskýrendur virðast á einu máli um að túlka yfirburða sigur Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum borgarstjóra, í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem ákall um breytingar. Það er án efa rétt ályktun. Hitt getur verið þyngri þraut að greina til hlítar hvers kyns breytinga megi vænta. Víst er að sjálfstæðismenn í Reykjavík vildu nýjan fulltrúa í leiðtogahóp flokksins. Stundum er nóg að tefla fram nýjum nöfnum til að endurvekja traust. Ástæðulaust er að gera lítið úr slíkum breytingum. En úrslitin segja ekkert um hvort þátttakendur í prófkjörinu hafi ætlað sér eitthvað annað eða talið þörf á því. Málefnaleg áhrif eru því á huldu. Spurningunni hvort Sjálfstæðisflokkurinn þrengist til hægri eða opnast nær miðjunni er ósvarað. Þó að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi ekki talað mikið um pólitísk stefnumál hefur hún sent skilaboð um pólitíska starfshætti. Boðskapur hennar í þeim efnum er: Samstarf og samvinna á breiðum grundvelli. Þetta fyrirheit er algjör andstæða við vinnulag formanna ríkisstjórnarflokkanna sem frá upphafi hefur byggst á átökum. Þeir hafa hafnað öllum málamiðlunum í átt að miðjunni og því síður yfir hana til borgaralegra viðhorfa. Í reynd yfirgáfu þeir strax norræna málamiðlunarlíkanið sem þeir kenndu sig við.Hvar byrjar samstarfspólitíkin? Ástæðan fyrir átakapólitík síðustu ára er ekki endilega sú að formenn ríkisstjórnarflokkanna elski fremur stríð en frið. Skýringin er miklu fremur hin að þeir eru ekki fúsir til að miðla málum og taka tillit til annarra pólitískra viðhorfa en þeirra sem liggja lengst til vinstri, að Evrópumálinu fráskildu. Þeir líta svo á að þjóðin hafi falið þeim að knýja þau fram með góðu eða illu. Þegar nýr frambjóðandi í leiðtogahópi Sjálfstæðisflokksins stendur andspænis því mikla verkefni að gera samvinnustjórnmál að veruleika á vettvangi þjóðmálanna snýst það um málamiðlanir sem lúta að grundvallar stefnumálum ólíkra flokka. Ella eru orðin tóm. Þess vegna má vænta þess að á næstunni muni flokkurinn gera grein fyrir því hvernig hann hyggst teikna upp sættir milli stríðandi afla. Viss hætta er á að samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks framlengi óbreyttar átakalínur með öfugum formerkjum. Samvinnustjórnmál þýða breiðara samstarf sem næði að minnsta kosti annað hvort til VG eða Samfylkingarinnar. Fyrsta verkefnið gæti verið að sýna samvinnustjórnmál í verki innan Sjálfstæðisflokksins. Eins og sakir standa eru Evrópumálin eina ágreiningsefnið. Að vísu kalla fáir á að ákvörðun þar um verði tekin nú. En margir vilja halda þeim möguleika opnum þegar að því kemur að ákveða framtíðar gjaldmiðil; hugsanlega á miðju næsta kjörtímabili. Að því leyti er þetta prófraun fyrir nýjan frambjóðanda í leiðtogahópnum að boðskapurinn um samvinnustjórnmál er líklegri til að hafa áhrif út á við hafi hann verið reyndur innanhúss fyrst. Eftir prófkjörið ættu sáttastjórnmál að vera áhrifaríkari en áður. Þverstæðan er sú að fyrstu yfirlýsingar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur benda ekki til að sáttapólitíkin eigi að ná til þessa máls. Nái hún ekki einu sinni til þess að halda Evrópumálunum opnum er rökrétt að ætla að fyrir liggi útfærð hugmynd um annan kost en evruna sem tryggi stöðugleika, samkeppnishæfni og sátt. Ella væri óráð að loka dyrum. Hverju breyta kosningarnar? Stuðningsmenn Samfylkingarinnar hafa ekki talið rétt að tefla mörgu nýju fólki fram við næstu kosningar. Á hinn bóginn fer þar fram uppgjör milli þeirra sem vilja viðhalda þröngri stöðu lengst til vinstri og hinna sem telja rétt að opna flokkinn í átt að miðjunni. Þar gætu því orðið pólitískar breytingar án nýrra liðsmanna. Árni Páll Árnason, reyndur þingmaður og útskúfaður ráðherra vegna frjálslyndra viðhorfa, fer fyrir þeim sem telja rétt að flokkurinn hverfi á ný að hefðbundinni jafnaðarstefnu. Greining hans í Silfri Egils um síðustu helgi á þeim efnahagslegu viðfangsefnum sem glíma þarf við var ábyrgt framlag til stjórnmálaumræðunnar. Óhætt er að draga þá ályktun að hann hafi þar opnað fyrir sáttapólitík. Það er eftirtektarvert nýmæli. Slái Sjálfstæðisflokkurinn hendinni á móti þeirri opnun gæti Samfylkingin hins vegar einangrast vegna Evrópumálanna; nema hún fórni þeim. Neyðist hún til þess er sennilegra að það gerist gagnvart VG og Framsóknarflokknum en Sjálfstæðisflokknum. Líkurnar á slíkri stjórn eru talsverðar. Þannig er enn hætta á að kosningarnar breyti málefnalega ekki öðru en að möguleikanum á nýrri mynt verði hafnað áður en hann kemur raunverulega upp.