England og Evrópa Jón Ormur Halldórsson skrifar 29. nóvember 2012 08:00 Það gekk illa hjá Bretum að komast inn í Evrópusambandið. Frakkar, undir forustu de Gaulle, beittu tvívegis neitunarvaldi gegn aðild Bretlands. Hann sagði Breta skorta pólitískan vilja til að vera hluti af Evrópu. Nú vill stór meirihluti Englendinga og kannski helmingur Skota að Bretland segi sig úr ESB.Veik staða Síðustu misseri hefur staða Breta innan ESB verulega veikst. Bretar hafa í áratugi beitt hótunum til að knýja fram sérkjör fyrir sig og til að stöðva aukna samvinnu innan ESB. Hótanirnar virka hins vegar ekki lengur. Þetta er einfaldlega vegna þess að margir sjá núorðið brottför Breta sem lausn á þrálátu vandamáli ESB frekar en ógn við sambandið. Bretar eiga orðið fáa vini innan ESB og enga aðdáendur. Kenning de Gaulle var rétt fyrir hálfri öld og er það kannski enn.Þýðingarlaus landafræði Það er ekki lengra frá Englandi til Hollands og Belgíu en frá Reykjavík til Vestmannaeyja. Engu að síður geta menn lesið bresku dagblöðin mánuðum saman án þess að sjá mikið bitastætt um Holland eða Belgíu. Með lestri þessara blaða geta menn hins vegar fylgst nokkuð vel með þróun mála á Nýja-Sjálandi að ekki sé minnst á Ástralíu og Kanada. Saga, skyldleiki og tunga ræður þessu. Landafræðin er þögul um afstæðar fjarlægðir.Sorgarsaga Og hagfræðin um tilfinningar fólks. Fyrir Breta var ESB efnahagslegur ávinningur en pólitísk sorgarsaga. Nær helmingur af viðskiptum Breta er við ESB en aðeins ríflega tíundi hluti við þau 53 lönd sem mynda breska samveldið. Efnahagur Bretlands er nátengdur Evrópu þótt sóknarfæri séu í fjarlægum löndum. En umræðan um ESB í Bretlandi hefur verið með hreinum ólíkindum fyrir upplýsta þjóð. Breskir stjórnmálamenn sæta stöðugum árásum frá æsifréttablöðum um að þeir sitji á svikráðum við Bretland með þátttöku í evrópsku samstarfi. Þess vegna hefur framganga breskra stjórnmálamanna á fundum ESB oft mótast mest af tilraunum þeirra til að ná sem skástum fyrirsögnum í blöðum Ruperts Murdoch og fleiri auðkýfinga sem eru svarnir andstæðingar ESB og frægir fyrir áhugaleysi á hlutlægni.Þolinmæði á þrotum Þjóðverjar, Hollendingar, Pólverjar og fleiri hafa talið sérstakan ávinning af veru Breta í ESB vegna svipaðra sjónarmiða í alþjóðamálum og fríverslun. Breskur hernaðarmáttur og víðtæk og djúp tengsl Breta í öðrum heimsálfum auka líka styrk ESB út á við. Bretar hafa hins vegar sífellt vegið að tilraunum þessara ríkja og annarra til að auka styrk ESB inn á við. Nú hefur kreppan gert aukinn innri styrk sambandsins að einu brýnasta hagsmunamáli þessara ríkja og því er þolinmæðin með Bretlandi á þrotum.Tvískipt samstarf Stærstu mál ESB snúast núorðið um evruna. Flestir telja að mjög aukið samstarf þurfi svo evran verði lausn fyrir Evrópu frekar en vandamál. Bretar hafa nú ljáð máls á því að búnar verði til stofnanir fyrir evrusvæðið með sérstökum fjárlögum. Þau yrðu fljótt mikilvægt hagstjórnartæki öfugt við almenn fjárlög ESB sem snúast mest um styrki við landbúnað og dreifbýli. Þetta gæti leyst mál en um leið yrði Bretland dæmt til áhrifaleysis í mikilvægustu málefnum ESB. Það sama á við um fleiri lönd. Pólland og fleiri ríki sem vilja taka upp evruna myndu hins vegar fá aukin áhrif.Kjarninn Hlutir tengjast með þeim hætti að áhrifaleysið yrði ekki bundið við evruna. Hún er sjálfur kjarni málsins sem flest annað mun taka mið af. Erfitt er að sjá að Bretar geti sætt sig við slíkt áhrifaleysi. Fjármálamiðstöðin í London myndar sterkustu hagsmunina í bresku efnahagslífi og gegn þeim hagsmunum gengur engin ríkisstjórn í London. Þar líst mörgum ekki á blikuna þótt fyrri spár um einangrun London frá evrusvæðinu hafi raunar ekki ræst. Sama má segja um fleiri greinar atvinnulífsins. Almenningur vill hins vegar sem minnst af ESB vita. Þar liggja vandræði breskra stjórnmálamanna.Enskur heimur Áhugamenn um úrsögn Bretlands eru oft talsmenn aukins samstarfs við ríki Breska samveldisins og Bandaríkin. Bretar hafa mikla sérstöðu í heiminum vegna sinnar heimsveldissögu. Tugir ríkja eiga ekki einungis tungumál og sögu sameiginlega með Bretlandi heldur einnig lagakerfi og viðskiptanet. Það er hins vegar miklu fleira en aðildin að ESB sem hefur takmarkað viðskipti við þau. Fæst þeirra líta heldur til aukins samstarfs við Bretland sem leið fram á við.Margir hringir Mikil andstaða er gegn því að evruríkin myndi sérstakan innri kjarna ESB, ekki síst frá framkvæmdastjórninni í Brussel sem myndi þá missa áhrif. Þungir hagsmunir knýja hins vegar áfram þróun í þessa átt. Bæði þeirra sem mest samstarf vilja og hinna sem vilja síður nána samvinnu. Svo gæti farið að sammiðja hringir yrðu fjórir eða fimm. Sá innsti með evruríkjum, sá næsti með þeim sem vilja taka upp evru, sá þriðji með þeim sem vilja mikið samstarf en ekki evru og sá ysti með þeim sem vilja fasta tengingu við innri markað ESB en ekki víðtækt samstarf. Sú staða getur hentað sumum en myndi, eins og EES sem yrði þá fimmti hringurinn, minna á áhorfendastúku frekar en leikvöll. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Ormur Halldórsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Það gekk illa hjá Bretum að komast inn í Evrópusambandið. Frakkar, undir forustu de Gaulle, beittu tvívegis neitunarvaldi gegn aðild Bretlands. Hann sagði Breta skorta pólitískan vilja til að vera hluti af Evrópu. Nú vill stór meirihluti Englendinga og kannski helmingur Skota að Bretland segi sig úr ESB.Veik staða Síðustu misseri hefur staða Breta innan ESB verulega veikst. Bretar hafa í áratugi beitt hótunum til að knýja fram sérkjör fyrir sig og til að stöðva aukna samvinnu innan ESB. Hótanirnar virka hins vegar ekki lengur. Þetta er einfaldlega vegna þess að margir sjá núorðið brottför Breta sem lausn á þrálátu vandamáli ESB frekar en ógn við sambandið. Bretar eiga orðið fáa vini innan ESB og enga aðdáendur. Kenning de Gaulle var rétt fyrir hálfri öld og er það kannski enn.Þýðingarlaus landafræði Það er ekki lengra frá Englandi til Hollands og Belgíu en frá Reykjavík til Vestmannaeyja. Engu að síður geta menn lesið bresku dagblöðin mánuðum saman án þess að sjá mikið bitastætt um Holland eða Belgíu. Með lestri þessara blaða geta menn hins vegar fylgst nokkuð vel með þróun mála á Nýja-Sjálandi að ekki sé minnst á Ástralíu og Kanada. Saga, skyldleiki og tunga ræður þessu. Landafræðin er þögul um afstæðar fjarlægðir.Sorgarsaga Og hagfræðin um tilfinningar fólks. Fyrir Breta var ESB efnahagslegur ávinningur en pólitísk sorgarsaga. Nær helmingur af viðskiptum Breta er við ESB en aðeins ríflega tíundi hluti við þau 53 lönd sem mynda breska samveldið. Efnahagur Bretlands er nátengdur Evrópu þótt sóknarfæri séu í fjarlægum löndum. En umræðan um ESB í Bretlandi hefur verið með hreinum ólíkindum fyrir upplýsta þjóð. Breskir stjórnmálamenn sæta stöðugum árásum frá æsifréttablöðum um að þeir sitji á svikráðum við Bretland með þátttöku í evrópsku samstarfi. Þess vegna hefur framganga breskra stjórnmálamanna á fundum ESB oft mótast mest af tilraunum þeirra til að ná sem skástum fyrirsögnum í blöðum Ruperts Murdoch og fleiri auðkýfinga sem eru svarnir andstæðingar ESB og frægir fyrir áhugaleysi á hlutlægni.Þolinmæði á þrotum Þjóðverjar, Hollendingar, Pólverjar og fleiri hafa talið sérstakan ávinning af veru Breta í ESB vegna svipaðra sjónarmiða í alþjóðamálum og fríverslun. Breskur hernaðarmáttur og víðtæk og djúp tengsl Breta í öðrum heimsálfum auka líka styrk ESB út á við. Bretar hafa hins vegar sífellt vegið að tilraunum þessara ríkja og annarra til að auka styrk ESB inn á við. Nú hefur kreppan gert aukinn innri styrk sambandsins að einu brýnasta hagsmunamáli þessara ríkja og því er þolinmæðin með Bretlandi á þrotum.Tvískipt samstarf Stærstu mál ESB snúast núorðið um evruna. Flestir telja að mjög aukið samstarf þurfi svo evran verði lausn fyrir Evrópu frekar en vandamál. Bretar hafa nú ljáð máls á því að búnar verði til stofnanir fyrir evrusvæðið með sérstökum fjárlögum. Þau yrðu fljótt mikilvægt hagstjórnartæki öfugt við almenn fjárlög ESB sem snúast mest um styrki við landbúnað og dreifbýli. Þetta gæti leyst mál en um leið yrði Bretland dæmt til áhrifaleysis í mikilvægustu málefnum ESB. Það sama á við um fleiri lönd. Pólland og fleiri ríki sem vilja taka upp evruna myndu hins vegar fá aukin áhrif.Kjarninn Hlutir tengjast með þeim hætti að áhrifaleysið yrði ekki bundið við evruna. Hún er sjálfur kjarni málsins sem flest annað mun taka mið af. Erfitt er að sjá að Bretar geti sætt sig við slíkt áhrifaleysi. Fjármálamiðstöðin í London myndar sterkustu hagsmunina í bresku efnahagslífi og gegn þeim hagsmunum gengur engin ríkisstjórn í London. Þar líst mörgum ekki á blikuna þótt fyrri spár um einangrun London frá evrusvæðinu hafi raunar ekki ræst. Sama má segja um fleiri greinar atvinnulífsins. Almenningur vill hins vegar sem minnst af ESB vita. Þar liggja vandræði breskra stjórnmálamanna.Enskur heimur Áhugamenn um úrsögn Bretlands eru oft talsmenn aukins samstarfs við ríki Breska samveldisins og Bandaríkin. Bretar hafa mikla sérstöðu í heiminum vegna sinnar heimsveldissögu. Tugir ríkja eiga ekki einungis tungumál og sögu sameiginlega með Bretlandi heldur einnig lagakerfi og viðskiptanet. Það er hins vegar miklu fleira en aðildin að ESB sem hefur takmarkað viðskipti við þau. Fæst þeirra líta heldur til aukins samstarfs við Bretland sem leið fram á við.Margir hringir Mikil andstaða er gegn því að evruríkin myndi sérstakan innri kjarna ESB, ekki síst frá framkvæmdastjórninni í Brussel sem myndi þá missa áhrif. Þungir hagsmunir knýja hins vegar áfram þróun í þessa átt. Bæði þeirra sem mest samstarf vilja og hinna sem vilja síður nána samvinnu. Svo gæti farið að sammiðja hringir yrðu fjórir eða fimm. Sá innsti með evruríkjum, sá næsti með þeim sem vilja taka upp evru, sá þriðji með þeim sem vilja mikið samstarf en ekki evru og sá ysti með þeim sem vilja fasta tengingu við innri markað ESB en ekki víðtækt samstarf. Sú staða getur hentað sumum en myndi, eins og EES sem yrði þá fimmti hringurinn, minna á áhorfendastúku frekar en leikvöll.