Tónlist

Björk fór til sama skurðlæknis og Adele

Björk greindist með hnút á raddböndunum fyrir fimm árum og beitti náttúrulegum aðferðum, þar á meðal breytti hún um mataræði, til að ná bata. Hún hafði lýst því yfir í viðtölum að hún ætlaði ekki í aðgerð en snerist hugur.

"Ég ákvað núna í september að fara til Boston í aðgerð til sama skurðlæknis og skar upp Adele. Þetta er eiginlega rokkstjarna raddbandaskurðlækna og það gekk rosalega vel. Ég er byrjuð að semja aftur lög og syngja og raddböndin eru orðin aftur eins og þau voru fyrir kannski fimmtán árum,“ segir Björk. "Ég er náttúrulega búin að öskra í þrjátíu ár og þetta var í raun og veru bara sigg sem var skorið af.“

Spurð hvort hún hafi ekki verið hrædd við að fara í aðgerð segist hún hafa verið ofsalega þrjósk í fimm ár. "Á þessum fimm árum er þessu búið að fara svo mikið fram að þetta er í raun engin áhætta lengur. Þetta eru laser-skurðlækningar og ég ákvað að fara til heimsins besta læknis fyrst þetta er nú vinnutækið mitt. Hann hafði gert 300 aðgerðir og 300 höfðu heppnast vel, þannig að tölfræðin var frekar góð,“ segir hún kímin.

Eftir aðgerðina þurfti hún að þegja í þrjár vikur og gekk um Reykjavík með spjald um hálsinn til að skrifa á. "Það var mjög fyndið. Dóttir mín var mjög þolinmóð. Hún var eiginlega duglegust og var farin að skilja fingramál.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.