Menning

Mesta áskorunin var kynlífslýsingar og koddahjal

Þýddu saman Það var oft stutt í hláturinn hjá þeim Þórdísi Elvu og Þóru Karitas er þær þýddu erótísku skáldsöguna, Þú afhjúpar mig eftir Sylviu Day sem kemur út á morgun. Mynd/erling
Þýddu saman Það var oft stutt í hláturinn hjá þeim Þórdísi Elvu og Þóru Karitas er þær þýddu erótísku skáldsöguna, Þú afhjúpar mig eftir Sylviu Day sem kemur út á morgun. Mynd/erling
„Í ferlinu komumst við að því að það er lítil hefð fyrir koddahjali á íslensku og var það mesta áskorunin fyrir okkur," segir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir sem ásamt Þóru Karitas Árnadóttur hefur þýtt metsölubókina Þú afhjúpar mig eftir Sylviu Day.

Bókin, sem flokkast undir erótíska ástarsögu, er gefin út hjá forlaginu Lesbók og kemur í verslanir á morgun. Þú afhjúpar mig er fyrsta bókin í þríleik Sylviu Day en fyrstu tvær bækurnar hafa slegið sölumet í Bretlandi, Bandaríkjunum og á Amazon.

Bókin er fyrsta skáldsagan sem þær Þórdís og Þóra þýða en verkinu skiptu þær bróðurlega á milli sín. „Við skiptum þessum jafnt og hittumst svo reglulega til að bera saman bækur okkar og fara yfir vafaatriði. Við ákváðum að hittast á vinnustofu frekar en á opinberum stað enda vorum við báðar orðnar ansi hispurslausar í kynlífslýsingunum og ég er viss um að við hefðum fengið frekar skrítnar augnagotur ef fólk hefði heyrt okkur spjalla saman," segir Þórdís og bætir við að oft var stutt í hláturinn hjá þeim stöllum í ýmsum þýðingarpælingum.

Mikill uppgangur hefur verið í útgáfu erótískra ástarsagna í kjölfarið á vinsældum Fimmtíu grárra skugga eftir E.L. James. Þórdís segist hafa verið efins í fyrstu er hún fékk boð um að þýða bókina enda sé hún sjálf ekki mikið fyrir afþreyingarbókmenntir. „Ég las svo bókina og fannst áhugavert að aðalpersónunarnar eru litaðar af ofbeldisfullri fortíð sem svo litar þeirra ástarsamband."

Þórdís segist ekki hafa staðist mátið og las því Fimmtíu gráa skugga í sumar en þessar tvær bækur hafa gjarna verið bornar saman.

„Það sem þessar bækur eiga sameiginlegt eru bersöglar lýsingar á kynlífi. Í Þú afhjúpar mig standa aðalpersónurnar hins vegar jafnt að vígi og það er ekkert afbrigðilegt í kynlífinu."

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.