Körfubolti

Völdu D'Antoni frekar en Phil - hefur aldrei farið með lið í úrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike D'Antoni hefur ekki komist alla leið með sín lið.
Mike D'Antoni hefur ekki komist alla leið með sín lið. Mynd/Nordic Photos/Getty
Mike D'Antoni er tekinn við sem þjálfari Los Angeles Lakers í NBA-deildinni en ekkert varð af því að Phil Jackson tæki við Lakers-liðinu í þriðja sinn.

Jackson hafði áhuga á að taka við Lakers en kröfur hans voru alltof háar. Hann vildi meðal annars fá sömu völd hjá félaginu og Pat Riley er með hjá Miami Heat. Lakers ákvað að gera frekar þriggja ára samning við D'Antoni með möguleika á fjórða árinu. D'Antoni fær tólf milljónir dollara fyrir þessi þrjú ár eða 1.550 milljónir íslenskra króna.

Það vekur athygli að Lakers veðji á D'Antoni að taka við stórstjörnuliði sínu þar sem allt minna en NBA-titill eru vonbrigði. D'Antoni hefur aldrei komist með sín lið í lokaúrslitin (10 tímabil) og lið hans hafa tapað 12 af síðustu 15 leikjum sínum í úrslitakeppni (New York 2011 0-4, Phoenix 2008 1-4 og Phoenix 2007 2-4).

D'Antoni var látinn fara frá New York Knicks í fyrra eftir 24 töp í fyrstu 42 leikjunum. Til samanburðar þá hefur Jackson unnið 11 meistaratitla og stýrt sínum liðum til sigurs í 69 prósent leikja í úrslitakeppni (229 af 333).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×