Lítið skref, stór ákvörðun Ólafur Þ. Stephensen skrifar 2. nóvember 2012 08:00 Fyrir ekki svo löngu, á tíma kalda stríðsins, voru varnar- og öryggismál bannorð á þingum Norðurlandaráðs. Þess vegna eru yfirlýsingar stjórnvalda í Svíþjóð og Finnlandi um að ríkin muni taka þátt í loftrýmisgæzlu Atlantshafsbandalagsins (NATO) við Ísland stórmerkileg tíðindi. Þögnin um varnar- og öryggismálin á sínum tíma helgaðist af ólíkri afstöðu norrænu ríkjanna til vestræns varnarsamstarfs. Þótt kalda stríðið sé búið og öryggismálin löngu orðin eitt af umræðuefnum norræns samstarfs hefur það ekki breytzt að Svíþjóð og Finnland standa utan NATO og ekki er neinn pólitískur meirihluti í ríkjunum fyrir því að breyta því. Hins vegar hafa bæði Svíar og Finnar starfað mjög náið með bandalaginu í ýmsum verkefnum, til dæmis að friðargæzlu, og stundum er því haldið fram að starfsemi herafla þeirra sé orðin betur aðlöguð NATO en sum aðildarríkin geta státað af. Nefnd undir forystu Thorvalds Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, lagði á sínum tíma til að norrænu ríkin tækju að sér það verkefni að líta eftir loftrými Íslands. Sú framtíðarsýn er ekki uppfyllt með þessari ákvörðun. Finnland og Svíþjóð hafa í raun ekki skuldbundið sig til að gera meira en að taka þátt í loftrýmisgæzlunni í nokkrar vikur í ársbyrjun 2014, þegar Noregur á að sjá um hana. Gera verður ráð fyrir að önnur NATO-ríki haldi áfram að skiptast á að sinna þessu eftirliti, að minnsta kosti enn um sinn. Engu að síður er þetta stór ákvörðun. Þótt utanríkisráðherrar Svíþjóðar og Finnlands segi hana ekki til marks um breytingu á afstöðu þeirra til NATO þýðir hún að sjálfsögðu að ríkin tvö stíga skrefinu lengra inn í kjarna vestræns varnarmálasamstarfs. Fyrir Norðurlandasamstarfið er þetta líka merkilegur áfangi. Það er á mörgum sviðum eitthvert nánasta milliríkjasamstarf sem þekkist. Með því að fikra sig lengra inn á svið varnarmálanna, þótt það gerist með þessu litla skrefi, er samstaða Norðurlandaríkjanna undirstrikuð enn betur en áður. Fyrir íslenzka hagsmuni er þetta jákvætt skref. Þegar varnarliðið fór frá Keflavíkurflugvelli 2006 var stórt svæði á Norður-Atlantshafinu skilið eftir án reglubundins eftirlits og Ísland varð eina NATO-ríkið án nokkurra loftvarna. Það var óviðunandi staða bæði fyrir Ísland og fyrir Atlantshafsbandalagið. NATO-ráðið ákvað enda í kjölfarið að aðildarríkin skiptust á að sinna loftrýmisgæzlu við Ísland og kæmu í veg fyrir að til yrði öryggistómarúm, sem einhver gæti viljað freistast til að notfæra sér. Viðbrögðin við þessari merkilegu ákvörðun varpa enn nýju ljósi á það hversu ósamstíga ríkisstjórn Íslands er. Svíar og Finnar undirstrika að yfirlýsing þeirra sé viðbrögð við beiðni íslenzkra stjórnvalda. Engu að síður vill annar stjórnarflokkurinn ekkert við málið kannast og telur varnir landsins, í hvaða formi sem þær eru, tímaskekkju og óþarfa. Þeir sem segjast vera í norrænni velferðarstjórn ættu fremur að fagna norrænni samstöðu um að tryggja öryggi Íslands og Norðurslóða. Velferðin byggist nefnilega á friði og öryggi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
Fyrir ekki svo löngu, á tíma kalda stríðsins, voru varnar- og öryggismál bannorð á þingum Norðurlandaráðs. Þess vegna eru yfirlýsingar stjórnvalda í Svíþjóð og Finnlandi um að ríkin muni taka þátt í loftrýmisgæzlu Atlantshafsbandalagsins (NATO) við Ísland stórmerkileg tíðindi. Þögnin um varnar- og öryggismálin á sínum tíma helgaðist af ólíkri afstöðu norrænu ríkjanna til vestræns varnarsamstarfs. Þótt kalda stríðið sé búið og öryggismálin löngu orðin eitt af umræðuefnum norræns samstarfs hefur það ekki breytzt að Svíþjóð og Finnland standa utan NATO og ekki er neinn pólitískur meirihluti í ríkjunum fyrir því að breyta því. Hins vegar hafa bæði Svíar og Finnar starfað mjög náið með bandalaginu í ýmsum verkefnum, til dæmis að friðargæzlu, og stundum er því haldið fram að starfsemi herafla þeirra sé orðin betur aðlöguð NATO en sum aðildarríkin geta státað af. Nefnd undir forystu Thorvalds Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, lagði á sínum tíma til að norrænu ríkin tækju að sér það verkefni að líta eftir loftrými Íslands. Sú framtíðarsýn er ekki uppfyllt með þessari ákvörðun. Finnland og Svíþjóð hafa í raun ekki skuldbundið sig til að gera meira en að taka þátt í loftrýmisgæzlunni í nokkrar vikur í ársbyrjun 2014, þegar Noregur á að sjá um hana. Gera verður ráð fyrir að önnur NATO-ríki haldi áfram að skiptast á að sinna þessu eftirliti, að minnsta kosti enn um sinn. Engu að síður er þetta stór ákvörðun. Þótt utanríkisráðherrar Svíþjóðar og Finnlands segi hana ekki til marks um breytingu á afstöðu þeirra til NATO þýðir hún að sjálfsögðu að ríkin tvö stíga skrefinu lengra inn í kjarna vestræns varnarmálasamstarfs. Fyrir Norðurlandasamstarfið er þetta líka merkilegur áfangi. Það er á mörgum sviðum eitthvert nánasta milliríkjasamstarf sem þekkist. Með því að fikra sig lengra inn á svið varnarmálanna, þótt það gerist með þessu litla skrefi, er samstaða Norðurlandaríkjanna undirstrikuð enn betur en áður. Fyrir íslenzka hagsmuni er þetta jákvætt skref. Þegar varnarliðið fór frá Keflavíkurflugvelli 2006 var stórt svæði á Norður-Atlantshafinu skilið eftir án reglubundins eftirlits og Ísland varð eina NATO-ríkið án nokkurra loftvarna. Það var óviðunandi staða bæði fyrir Ísland og fyrir Atlantshafsbandalagið. NATO-ráðið ákvað enda í kjölfarið að aðildarríkin skiptust á að sinna loftrýmisgæzlu við Ísland og kæmu í veg fyrir að til yrði öryggistómarúm, sem einhver gæti viljað freistast til að notfæra sér. Viðbrögðin við þessari merkilegu ákvörðun varpa enn nýju ljósi á það hversu ósamstíga ríkisstjórn Íslands er. Svíar og Finnar undirstrika að yfirlýsing þeirra sé viðbrögð við beiðni íslenzkra stjórnvalda. Engu að síður vill annar stjórnarflokkurinn ekkert við málið kannast og telur varnir landsins, í hvaða formi sem þær eru, tímaskekkju og óþarfa. Þeir sem segjast vera í norrænni velferðarstjórn ættu fremur að fagna norrænni samstöðu um að tryggja öryggi Íslands og Norðurslóða. Velferðin byggist nefnilega á friði og öryggi.