Gegnsærri stjórnsýsla á netinu Ólafur Þ. Stephensen skrifar 5. október 2012 00:30 Í Fréttablaðinu í fyrradag voru tvær fréttir, sem snúa að rafrænni stjórnsýslu sveitarfélaga. Annars vegar hefur Hafnarfjarðarbær ákveðið að í stað þess að setja eingöngu fundargerðir bæjarstjórnar og nefnda og ráða bæjarins á vef bæjarins verði skjöl sem tengjast ákvörðunum á fundum gerð aðgengileg almenningi á netinu. Hins vegar var sagt frá því að borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að upplýsingar um allar kostnaðargreiðslur borgarinnar verði gerðar almenningi aðgengilegar á netinu. Þetta eru hvort tveggja merkilegar ákvarðanir, sem brjóta blað í rafrænni stjórnsýslu og eru líklegar til að verða öðrum sveitarfélögum og ekki síður ríkinu og stofnunum þess fyrirmynd. Stjórnsýslu- og upplýsingalög kveða á um aðgang almennings að gögnum stjórnsýslunnar, en til þessa hefur fólk þurft að biðja sérstaklega um þau, í stað þess að þau séu einfaldlega gerð öllum aðgengileg. Þar hefur ráðið gömul hugsun frá því fyrir daga internetsins. Nýja hugsunin á að sjálfsögðu að vera þessi: Ef upplýsingarnar eru opinberar og ekkert leyndarmál, á að birta þær strax og þær eru tilbúnar. Fyrir ríki og sveitarfélög getur það jafnvel verið ódýrara að gera það þannig en að eyða vinnu í að tína sérstaklega til gögn sem almenningur eða fjölmiðlar biðja um. Breytingar af þessu tagi munu auðvelda fjölmiðlum vinnu þeirra við að upplýsa almenning. Blaðamenn átta sig á því þegar þeir þurfa að fást við ýmsar erlendar ríkisstofnanir, til dæmis dómstóla, hvað sambærilegar stofnanir hér á landi eru skammt á veg komnar í birtingu gagna sem eiga erindi við almenning. Um leið mun umfangsmikil birting gagna á netinu að sumu leyti gera fjölmiðlana að óþörfum millilið stjórnsýslunnar og almennings. Hver sem er getur nálgazt gögn stjórnsýslunnar og vakið athygli á þeim, til dæmis á eigin bloggi, á samfélagsmiðlum og þar fram eftir götunum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vitna til reynslunnar af „gegnsæisgáttum" sem settar hafa verið á fót hjá sveitarfélögum, í einstökum ríkjum og hjá alríkisstjórninni í Bandaríkjunum og jafnframt hjá Lundúnaborg og Evrópusambandinu. Sum ríki í Bandaríkjunum birta alla reikninga sem þau greiða á netinu og milljónir Bandaríkjadala sparast árlega vegna ábendinga sem berast frá almenningi og fjölmiðlum vegna bætts aðgangs að upplýsingum. „Með því að setja opinber útgjöld þannig undir smásjá almennings og fjölmiðla er líklegt að meðferð opinbers fjár batni og verulega dragi úr hvers konar eyðslu, spillingu og svindli í kerfinu," segir í greinargerð tillögunar. Þetta er kjarni málsins. Gegnsæi stjórnsýslunnar eykur aðhald almennings og fjölmiðla. Slíkt aðhald er líklegt til að bæta stjórnsýsluna og spara peninga. Við þurfum meira svona. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun
Í Fréttablaðinu í fyrradag voru tvær fréttir, sem snúa að rafrænni stjórnsýslu sveitarfélaga. Annars vegar hefur Hafnarfjarðarbær ákveðið að í stað þess að setja eingöngu fundargerðir bæjarstjórnar og nefnda og ráða bæjarins á vef bæjarins verði skjöl sem tengjast ákvörðunum á fundum gerð aðgengileg almenningi á netinu. Hins vegar var sagt frá því að borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að upplýsingar um allar kostnaðargreiðslur borgarinnar verði gerðar almenningi aðgengilegar á netinu. Þetta eru hvort tveggja merkilegar ákvarðanir, sem brjóta blað í rafrænni stjórnsýslu og eru líklegar til að verða öðrum sveitarfélögum og ekki síður ríkinu og stofnunum þess fyrirmynd. Stjórnsýslu- og upplýsingalög kveða á um aðgang almennings að gögnum stjórnsýslunnar, en til þessa hefur fólk þurft að biðja sérstaklega um þau, í stað þess að þau séu einfaldlega gerð öllum aðgengileg. Þar hefur ráðið gömul hugsun frá því fyrir daga internetsins. Nýja hugsunin á að sjálfsögðu að vera þessi: Ef upplýsingarnar eru opinberar og ekkert leyndarmál, á að birta þær strax og þær eru tilbúnar. Fyrir ríki og sveitarfélög getur það jafnvel verið ódýrara að gera það þannig en að eyða vinnu í að tína sérstaklega til gögn sem almenningur eða fjölmiðlar biðja um. Breytingar af þessu tagi munu auðvelda fjölmiðlum vinnu þeirra við að upplýsa almenning. Blaðamenn átta sig á því þegar þeir þurfa að fást við ýmsar erlendar ríkisstofnanir, til dæmis dómstóla, hvað sambærilegar stofnanir hér á landi eru skammt á veg komnar í birtingu gagna sem eiga erindi við almenning. Um leið mun umfangsmikil birting gagna á netinu að sumu leyti gera fjölmiðlana að óþörfum millilið stjórnsýslunnar og almennings. Hver sem er getur nálgazt gögn stjórnsýslunnar og vakið athygli á þeim, til dæmis á eigin bloggi, á samfélagsmiðlum og þar fram eftir götunum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vitna til reynslunnar af „gegnsæisgáttum" sem settar hafa verið á fót hjá sveitarfélögum, í einstökum ríkjum og hjá alríkisstjórninni í Bandaríkjunum og jafnframt hjá Lundúnaborg og Evrópusambandinu. Sum ríki í Bandaríkjunum birta alla reikninga sem þau greiða á netinu og milljónir Bandaríkjadala sparast árlega vegna ábendinga sem berast frá almenningi og fjölmiðlum vegna bætts aðgangs að upplýsingum. „Með því að setja opinber útgjöld þannig undir smásjá almennings og fjölmiðla er líklegt að meðferð opinbers fjár batni og verulega dragi úr hvers konar eyðslu, spillingu og svindli í kerfinu," segir í greinargerð tillögunar. Þetta er kjarni málsins. Gegnsæi stjórnsýslunnar eykur aðhald almennings og fjölmiðla. Slíkt aðhald er líklegt til að bæta stjórnsýsluna og spara peninga. Við þurfum meira svona.