Eftir situr sú tilfinning... Guðmundur Andri Thorsson skrifar 1. október 2012 06:00 Hundrað milljónir, nei tvö hundruð milljónir – þrjú, fjögur – eða voru það fjórir milljarðar? – fimm sex sjö? Einhvers staðar dettur maður út. Forréttindafólk í laga- og bókhaldsþjónustu sem sögð er í þágu almennings rakar til sín fjárhæðum og tölurnar verða fljótlega sem stjörnur himinhvolfsins á heiðskírri nótt – óskiljanlegt ómæli – en eftir situr sú tilfinning að einhver sé að maka krókinn, einhver sé að plata þá sem eiga að gæta almannafjár, einhver fái meira en honum/henni ber: eftir situr sú tilfinning sem Jónas Hallgrímsson orðaði í Skraddaraþönkum um kaupmanninn: „því mega borga enn / skapþungir skilamenn / skuldina lognu á svikatöflu þinni" Eftir situr sú tilfinning að til séu trilljónir og skrilljónir. En þeim sé ekki rétt varið; þær rati ekki í rétta staði. Þær streymi þangað sem þær eigi ekki að vera. Það vantar sárlega peninga til þess að greiða heilbrigðisstarfsfólki hærri laun og kaupa fleiri tæki á Landspítalann; kennarar þurfa hærri laun, enda í miklu ábyrgðarmeira starfi en skapléttir skila(nefnda)menn. Það þarf að leggja vegi, efla samgöngur, styrkja innviði samfélagsins á alla lund eftir mörg erfið ár, einkavæðingafár og sífelldan niðurskurð. Það vantar þyrlur. Það vantar nýsköpun, það vantar ný úrræði handa skuldugu launafólki, barnafólki, gömlu fólki? En fólkið í skilanefndum bankanna vantar ekki nýja drakt eða nýjan marmara á gólfið, nýjan bíl eða nýtt golfsett. Það vantar alveg áreiðanlega ekki neitt. Nema kannski sómakennd.Talnadiktur Okkur hefur ekki tekist nægilega vel að koma á festu, gagnsæi og sanngirni í samfélaginu eftir áralanga óstjórn og ósiði. Frændur, skólabræður, flokksmenn og sveitungar hafa um árabil hyglað sér og sínum. Klíkur hafa farið með almannasjóði sem herfang og hvorki skeytt um skömm né heiður. Samfara samfelldu niðrunartali um ríkisrekstur og eigur ríkisins hefur virðingarleysi þótt sjálfsagt í umgengni við eigur ríkisins; eigur almennings. Algengasta aðferðin við að koma sér í kjörstöðu við krana ríkissjóðs hefur verið að nefna frámunalega lága tölu um fyrirhugaðar framkvæmdir svo að þingmenn eða aðrir ábyrgðarmenn geti samþykkt hana. Óorðuð sátt ríkir um það í samfélaginu að slík tala merki ekkert – sé bara táknræn, formsins vegna. Menn segja að tiltekin framkvæmd muni samkvæmt kostnaðaráætlun kosta X margar milljónir en allir vita að það verða Y margir milljarðar. Allir vita að þetta eru bara svikatöflur, skýrsluprettir og -vélar. „Því mega borga enn / skapþungir skilamenn" – það er að segja hinn venjulegi launamaður. Þetta diktaða eðli tölunnar sem sett er fram í fjárheimild hefur komið vel fram í umræðum um uppsetninguna á Oracle-kerfinu fræga sem Skýrr – áður Skýrsluvélar ríkisins og síðar Advania – seldi ríkinu og hefur ekki farið varhluta af gagnrýni, bæði úr skýrsludrögum Ríkisendurskoðunar, sem ekki náðist að klára á átta árum, og eins frá fólki sem starfað hefur eftir þessu kerfi og ber því nú illa söguna, þegar einhverjum hugkvæmist loks eftir öll þess ár að inna það eftir því hvernig kerfið reynist. Í upphafi var sagt að Skýrr hefði selt ríkinu bókhaldskerfi á hundrað og sextíu milljónir. Sú tala er nú orðin að fjórum milljörðum. Deilt er um hvort það hafi kannski alltaf staðið til; þessar hundrað og sextíu milljónir hafi bara verið undirbúningskostnaður, bara svona talnadiktur sem aldrei stóð til að vísaði á neinn veruleika. Síðan hafa þingmenn á hverju ári samþykkt möglunarlaust stórar fjárhæðir til uppsetningar, viðhalds og uppfærslu þessa kerfis. Gunnar Hall segir að menn hafi haldið sig innan fjárheimilda í þeim fjáraustri, nema náttúrulega þeirrar upphaflegu sem ekkert merkti. Hann talar í austur á meðan Jóhannes Kr. Kristjánsson spyr hann í vestur; svo koma aðrir og æpa: Hei! Líttu í norður! Og eftir situr sú tilfinning að við séum að horfa inn í eitthvert ómæli, eitthvert hulduland, inn í gjörningahríð. Sú var tíð að Íslendingar trúðu því að á miðhálendinu væru grösugir og huldir dalir og þar hefðust við útilegumenn í blómlegri byggð þar sem smjör drypi af hverju strái og akrar yxu ósánir. Þar fóru feitir sauðir um í hjörðum og þar var fagurt mannlíf því að þar fengu allir nóg að borða. Þetta var allsnægtaland, öðrum hulið, og bæri svo við að villtist þangað maður úr byggðum kunnu útilegumennirnir ráð til þess að magna upp gjörningaþoku svo að hann villtist og ærðist. Þetta land er til mitt á meðal vor: það heitir íslensk stjórnsýsla. Og þar fara ráðuneytismenn og skrifstofustjórar, einkavæddir frömuðir og bókhaldsbrellu-meistarar um í flokkum og kýla sína þöndu vömb af allsnægtaborði feitra fjárheimilda. Og í hvert sinn sem þangað villist einhver úr byggðum magna þeir upp gjörningahríð talna og orðaleppa: hundrað milljónir? Nei nei nei! fjórir milljarðar? Alls ekki! Sko sjáðu nú til... Og eftir situr sú tilfinning að vera valdalaus. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Vindmyllufyrirtæki í áskrift hjá íslenskum almenningi Linda Jónsdóttir Skoðun Börn, foreldrar og skólar í vanda: Hvernig eigum við að nálgast verkefnið? Margrét Sigmarsdóttir,Bergljót Gyða Guðmundsdóttir,Arndís Þorsteinsdóttir,Edda Vikar Guðmundsdóttir Skoðun Hvers virði er vara ef hún er ekki seld? Jón Jósafat Björnsson Skoðun Ógnin sem við sjáum ekki – Hið falda tungumál ungu kynslóðarinnar á netinu Birgitta Þorsteinsdóttir Skoðun Nokkur atriði sem almennum borgara finnst að helst megi ekki ræða – eða mjög sjaldan Hjalti Þórðarson Skoðun Aulatal um að Evrópa sé veik og getulaus Ole Anton Bieltvedt Skoðun Metnaðarfull markmið og stórir sigrar Halla Helgadóttir Skoðun Ár vondra vinnubragða í Stúdentaráði HÍ Katla Ólafsdóttir,Mathias Bragi Ölvisson Skoðun „Evrópa er í hnignun“ – Er það samt? Lítum aðeins á söguna Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Vilja Ísland í sambandsríki Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Hundrað milljónir, nei tvö hundruð milljónir – þrjú, fjögur – eða voru það fjórir milljarðar? – fimm sex sjö? Einhvers staðar dettur maður út. Forréttindafólk í laga- og bókhaldsþjónustu sem sögð er í þágu almennings rakar til sín fjárhæðum og tölurnar verða fljótlega sem stjörnur himinhvolfsins á heiðskírri nótt – óskiljanlegt ómæli – en eftir situr sú tilfinning að einhver sé að maka krókinn, einhver sé að plata þá sem eiga að gæta almannafjár, einhver fái meira en honum/henni ber: eftir situr sú tilfinning sem Jónas Hallgrímsson orðaði í Skraddaraþönkum um kaupmanninn: „því mega borga enn / skapþungir skilamenn / skuldina lognu á svikatöflu þinni" Eftir situr sú tilfinning að til séu trilljónir og skrilljónir. En þeim sé ekki rétt varið; þær rati ekki í rétta staði. Þær streymi þangað sem þær eigi ekki að vera. Það vantar sárlega peninga til þess að greiða heilbrigðisstarfsfólki hærri laun og kaupa fleiri tæki á Landspítalann; kennarar þurfa hærri laun, enda í miklu ábyrgðarmeira starfi en skapléttir skila(nefnda)menn. Það þarf að leggja vegi, efla samgöngur, styrkja innviði samfélagsins á alla lund eftir mörg erfið ár, einkavæðingafár og sífelldan niðurskurð. Það vantar þyrlur. Það vantar nýsköpun, það vantar ný úrræði handa skuldugu launafólki, barnafólki, gömlu fólki? En fólkið í skilanefndum bankanna vantar ekki nýja drakt eða nýjan marmara á gólfið, nýjan bíl eða nýtt golfsett. Það vantar alveg áreiðanlega ekki neitt. Nema kannski sómakennd.Talnadiktur Okkur hefur ekki tekist nægilega vel að koma á festu, gagnsæi og sanngirni í samfélaginu eftir áralanga óstjórn og ósiði. Frændur, skólabræður, flokksmenn og sveitungar hafa um árabil hyglað sér og sínum. Klíkur hafa farið með almannasjóði sem herfang og hvorki skeytt um skömm né heiður. Samfara samfelldu niðrunartali um ríkisrekstur og eigur ríkisins hefur virðingarleysi þótt sjálfsagt í umgengni við eigur ríkisins; eigur almennings. Algengasta aðferðin við að koma sér í kjörstöðu við krana ríkissjóðs hefur verið að nefna frámunalega lága tölu um fyrirhugaðar framkvæmdir svo að þingmenn eða aðrir ábyrgðarmenn geti samþykkt hana. Óorðuð sátt ríkir um það í samfélaginu að slík tala merki ekkert – sé bara táknræn, formsins vegna. Menn segja að tiltekin framkvæmd muni samkvæmt kostnaðaráætlun kosta X margar milljónir en allir vita að það verða Y margir milljarðar. Allir vita að þetta eru bara svikatöflur, skýrsluprettir og -vélar. „Því mega borga enn / skapþungir skilamenn" – það er að segja hinn venjulegi launamaður. Þetta diktaða eðli tölunnar sem sett er fram í fjárheimild hefur komið vel fram í umræðum um uppsetninguna á Oracle-kerfinu fræga sem Skýrr – áður Skýrsluvélar ríkisins og síðar Advania – seldi ríkinu og hefur ekki farið varhluta af gagnrýni, bæði úr skýrsludrögum Ríkisendurskoðunar, sem ekki náðist að klára á átta árum, og eins frá fólki sem starfað hefur eftir þessu kerfi og ber því nú illa söguna, þegar einhverjum hugkvæmist loks eftir öll þess ár að inna það eftir því hvernig kerfið reynist. Í upphafi var sagt að Skýrr hefði selt ríkinu bókhaldskerfi á hundrað og sextíu milljónir. Sú tala er nú orðin að fjórum milljörðum. Deilt er um hvort það hafi kannski alltaf staðið til; þessar hundrað og sextíu milljónir hafi bara verið undirbúningskostnaður, bara svona talnadiktur sem aldrei stóð til að vísaði á neinn veruleika. Síðan hafa þingmenn á hverju ári samþykkt möglunarlaust stórar fjárhæðir til uppsetningar, viðhalds og uppfærslu þessa kerfis. Gunnar Hall segir að menn hafi haldið sig innan fjárheimilda í þeim fjáraustri, nema náttúrulega þeirrar upphaflegu sem ekkert merkti. Hann talar í austur á meðan Jóhannes Kr. Kristjánsson spyr hann í vestur; svo koma aðrir og æpa: Hei! Líttu í norður! Og eftir situr sú tilfinning að við séum að horfa inn í eitthvert ómæli, eitthvert hulduland, inn í gjörningahríð. Sú var tíð að Íslendingar trúðu því að á miðhálendinu væru grösugir og huldir dalir og þar hefðust við útilegumenn í blómlegri byggð þar sem smjör drypi af hverju strái og akrar yxu ósánir. Þar fóru feitir sauðir um í hjörðum og þar var fagurt mannlíf því að þar fengu allir nóg að borða. Þetta var allsnægtaland, öðrum hulið, og bæri svo við að villtist þangað maður úr byggðum kunnu útilegumennirnir ráð til þess að magna upp gjörningaþoku svo að hann villtist og ærðist. Þetta land er til mitt á meðal vor: það heitir íslensk stjórnsýsla. Og þar fara ráðuneytismenn og skrifstofustjórar, einkavæddir frömuðir og bókhaldsbrellu-meistarar um í flokkum og kýla sína þöndu vömb af allsnægtaborði feitra fjárheimilda. Og í hvert sinn sem þangað villist einhver úr byggðum magna þeir upp gjörningahríð talna og orðaleppa: hundrað milljónir? Nei nei nei! fjórir milljarðar? Alls ekki! Sko sjáðu nú til... Og eftir situr sú tilfinning að vera valdalaus.
Börn, foreldrar og skólar í vanda: Hvernig eigum við að nálgast verkefnið? Margrét Sigmarsdóttir,Bergljót Gyða Guðmundsdóttir,Arndís Þorsteinsdóttir,Edda Vikar Guðmundsdóttir Skoðun
Ógnin sem við sjáum ekki – Hið falda tungumál ungu kynslóðarinnar á netinu Birgitta Þorsteinsdóttir Skoðun
Nokkur atriði sem almennum borgara finnst að helst megi ekki ræða – eða mjög sjaldan Hjalti Þórðarson Skoðun
Börn, foreldrar og skólar í vanda: Hvernig eigum við að nálgast verkefnið? Margrét Sigmarsdóttir,Bergljót Gyða Guðmundsdóttir,Arndís Þorsteinsdóttir,Edda Vikar Guðmundsdóttir Skoðun
Ógnin sem við sjáum ekki – Hið falda tungumál ungu kynslóðarinnar á netinu Birgitta Þorsteinsdóttir Skoðun
Nokkur atriði sem almennum borgara finnst að helst megi ekki ræða – eða mjög sjaldan Hjalti Þórðarson Skoðun