Lokast báðar leiðir? Þorsteinn Pálsson skrifar 29. september 2012 06:00 Í stjórnmálum þurfa menn að hafa snotrar hugsjónir og kunna list hins mögulega. Fram undan eru ákvarðanir þar sem reynir á þessa jafnvægislist. Í húfi er val á leiðum úr efnahagskreppunni. Í þessu samhengi er ástæða til að nefna tvö mál: Annars vegar er meðferð stjórnarskrármálsins. Hins vegar er mótun stefnu í peningamálum og órjúfanleg tengsl þess máls við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og spurninguna um Evrópusambandsaðild. Óhjákvæmilegt er að horfa á þessi viðfangsefni í samhengi þegar að því kemur að ákveða hvernig haldið skuli á málum. Óbreytt stjórnarskrá útilokar að unnt sé að halda möguleikanum um upptöku evru opnum á næsta kjörtímabili. Það sem meira er: Ætlum við að halda í Evrópska efnahagssvæðið og varðveita krónuna þarf líka stjórnarskrárbreytingu vegna nýrra reglna á sviði fjármálaeftirlits, sem fela í sér valdframsal. Allt bendir svo til að við þurfum að setja strangari varúðarreglur um frjálst flæði fjármagns en önnur Evrópulönd. Það kallar á undanþágur frá samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þá gæti það orðið þrautin þyngri að halda viðskiptafrelsinu óskertu til frambúðar á öðrum sviðum samningsins. Óbreytt samningsstaða við Evrópu er því ekki kostur lengur. Engum vafa er undirorpið að mikill meirihluti fólks vill eitt af þrennu í stöðunni: 1) Halda í krónuna og byggja á Evrópska efnahagssvæðinu með endurnýjuðum samningi. 2) Taka upp evru og ganga í Evrópusambandið. 3) Hafa báðar leiðir opnar enn um sinn. Hugmyndin um að ganga út af Evrópska efnahagssvæðinu á fáa formælendur. Mismunandi sjónarmið um lausn á peningamálunum kalla því á stjórnarskrárbreytingu.Allt eða ekkert? Þá spyrja menn: Er nokkur vandi á höndum? Liggja ekki fyrir hugmyndir að nýrri stjórnarskrá þar sem ráð er fyrir því gert að deila megi fullveldisréttinum í alþjóðasamvinnu? Það er rétt. En málið er flóknara. Á það er að líta að í fyrsta skipti í sögu stjórnarskrárbreytinga hefur ekki verið leitað eftir víðtækri samstöðu á Alþingi um vinnulag og efnistök. Fyrir vikið standa fyrir dyrum miklar þrætur þegar efnisumræður hefjast loksins. Þar að auki er málið komið í tímaþröng. Hvort sem menn eru hlynntir þeirri heildarbreytingu sem um er rætt eða ekki má öllum vera ljóst að teflt er á tæpasta vað með afgreiðslu á svo stóru máli fyrir þinglok. Jafnvel þó að það takist bendir flest til að það verði samþykkt með naumum meirihluta. Stjórnarskrárbreytingar þarf að leggja fram á nýju þingi til endurstaðfestingar. Það er gert til þess að kjósendur geti tekið í taumana ef þeim sýnist svo. Verði þeir sem væntanlega greiða atkvæði gegn stjórnarskrárfrumvarpinu í meirihluta að kosningum loknum verður að líta svo á að kjósendur hafi stöðvað málið. Auðvitað er ekki unnt að fullyrða að svo fari. Hitt væri barnalegt að viðurkenna ekki að í öllu falli eru líkurnar á því jafn miklar. Gerist það er búið að loka báðum aðalleiðunum í peningamálum fyrir allt næsta kjörtímabil. Vilja menn taka þá áhættu með því að heimta annað hvort allt eða ekkert í stjórnarskrármálinu? Eða: Vilja menn sýna list hins mögulega og semja um framgang þeirra breytinga sem brýnastar eru? Af svörunum má ráða hvaða alvara býr að baki afstöðu einstakra flokka til þeirra miklu mála sem eru í uppnámi af þessum sökum.Forgangsröðun Í tillögum stjórnlagaráðs segir að kjósendur eigi að greiða atkvæði um samning sem Alþingi hefur samþykkt um framsal á fullveldisrétti í alþjóðasamstarfi. Hins vegar er engin krafa gerð um lágmarks þátttöku eða stuðning. Einfaldur meirihluti í þjóðaratkvæði á að ráða úrslitum án tillits til þátttöku. Ýmis rök mæla hins vegar með því að eitthvert lágmarks hlutfall allra atkvæðisbærra manna styðji ákvörðun Alþingis. Það þýðir að í raun yrði gerð krafa um aukinn meirihluta eftir því sem þátttaka í kosningunni er minni. Hugsunin er sú að gera eigi ríkari kröfur um ákvarðanir sem lúta að skipan fullveldisréttarins en almenn löggjafarmál. Vilji menn leita eftir samstöðu um þetta brýna stjórnarskrárákvæði er óvitlaust að hugleiða þennan kost. Ekki er ólíklegt að þeir sem hikandi eru við að opna slíkar stjórnarskrárheimildir væru fúsari til samkomulags ef vilji væri til slíkra breytinga. Þetta eina álitaefni sýnir hversu brýnt er að brjóta stjórnarskrárumræðuna betur til mergjar. En hvað sem því líður er hyggilegt að forgangsraða viðfangsefnum í stjórnarskrármálinu með hliðsjón af öðrum markmiðum. Hitt er áhættusækni að færast meira í fang en víst er að menn ráða við. Það er varasamt í pólitík eins og bönkum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Í stjórnmálum þurfa menn að hafa snotrar hugsjónir og kunna list hins mögulega. Fram undan eru ákvarðanir þar sem reynir á þessa jafnvægislist. Í húfi er val á leiðum úr efnahagskreppunni. Í þessu samhengi er ástæða til að nefna tvö mál: Annars vegar er meðferð stjórnarskrármálsins. Hins vegar er mótun stefnu í peningamálum og órjúfanleg tengsl þess máls við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og spurninguna um Evrópusambandsaðild. Óhjákvæmilegt er að horfa á þessi viðfangsefni í samhengi þegar að því kemur að ákveða hvernig haldið skuli á málum. Óbreytt stjórnarskrá útilokar að unnt sé að halda möguleikanum um upptöku evru opnum á næsta kjörtímabili. Það sem meira er: Ætlum við að halda í Evrópska efnahagssvæðið og varðveita krónuna þarf líka stjórnarskrárbreytingu vegna nýrra reglna á sviði fjármálaeftirlits, sem fela í sér valdframsal. Allt bendir svo til að við þurfum að setja strangari varúðarreglur um frjálst flæði fjármagns en önnur Evrópulönd. Það kallar á undanþágur frá samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þá gæti það orðið þrautin þyngri að halda viðskiptafrelsinu óskertu til frambúðar á öðrum sviðum samningsins. Óbreytt samningsstaða við Evrópu er því ekki kostur lengur. Engum vafa er undirorpið að mikill meirihluti fólks vill eitt af þrennu í stöðunni: 1) Halda í krónuna og byggja á Evrópska efnahagssvæðinu með endurnýjuðum samningi. 2) Taka upp evru og ganga í Evrópusambandið. 3) Hafa báðar leiðir opnar enn um sinn. Hugmyndin um að ganga út af Evrópska efnahagssvæðinu á fáa formælendur. Mismunandi sjónarmið um lausn á peningamálunum kalla því á stjórnarskrárbreytingu.Allt eða ekkert? Þá spyrja menn: Er nokkur vandi á höndum? Liggja ekki fyrir hugmyndir að nýrri stjórnarskrá þar sem ráð er fyrir því gert að deila megi fullveldisréttinum í alþjóðasamvinnu? Það er rétt. En málið er flóknara. Á það er að líta að í fyrsta skipti í sögu stjórnarskrárbreytinga hefur ekki verið leitað eftir víðtækri samstöðu á Alþingi um vinnulag og efnistök. Fyrir vikið standa fyrir dyrum miklar þrætur þegar efnisumræður hefjast loksins. Þar að auki er málið komið í tímaþröng. Hvort sem menn eru hlynntir þeirri heildarbreytingu sem um er rætt eða ekki má öllum vera ljóst að teflt er á tæpasta vað með afgreiðslu á svo stóru máli fyrir þinglok. Jafnvel þó að það takist bendir flest til að það verði samþykkt með naumum meirihluta. Stjórnarskrárbreytingar þarf að leggja fram á nýju þingi til endurstaðfestingar. Það er gert til þess að kjósendur geti tekið í taumana ef þeim sýnist svo. Verði þeir sem væntanlega greiða atkvæði gegn stjórnarskrárfrumvarpinu í meirihluta að kosningum loknum verður að líta svo á að kjósendur hafi stöðvað málið. Auðvitað er ekki unnt að fullyrða að svo fari. Hitt væri barnalegt að viðurkenna ekki að í öllu falli eru líkurnar á því jafn miklar. Gerist það er búið að loka báðum aðalleiðunum í peningamálum fyrir allt næsta kjörtímabil. Vilja menn taka þá áhættu með því að heimta annað hvort allt eða ekkert í stjórnarskrármálinu? Eða: Vilja menn sýna list hins mögulega og semja um framgang þeirra breytinga sem brýnastar eru? Af svörunum má ráða hvaða alvara býr að baki afstöðu einstakra flokka til þeirra miklu mála sem eru í uppnámi af þessum sökum.Forgangsröðun Í tillögum stjórnlagaráðs segir að kjósendur eigi að greiða atkvæði um samning sem Alþingi hefur samþykkt um framsal á fullveldisrétti í alþjóðasamstarfi. Hins vegar er engin krafa gerð um lágmarks þátttöku eða stuðning. Einfaldur meirihluti í þjóðaratkvæði á að ráða úrslitum án tillits til þátttöku. Ýmis rök mæla hins vegar með því að eitthvert lágmarks hlutfall allra atkvæðisbærra manna styðji ákvörðun Alþingis. Það þýðir að í raun yrði gerð krafa um aukinn meirihluta eftir því sem þátttaka í kosningunni er minni. Hugsunin er sú að gera eigi ríkari kröfur um ákvarðanir sem lúta að skipan fullveldisréttarins en almenn löggjafarmál. Vilji menn leita eftir samstöðu um þetta brýna stjórnarskrárákvæði er óvitlaust að hugleiða þennan kost. Ekki er ólíklegt að þeir sem hikandi eru við að opna slíkar stjórnarskrárheimildir væru fúsari til samkomulags ef vilji væri til slíkra breytinga. Þetta eina álitaefni sýnir hversu brýnt er að brjóta stjórnarskrárumræðuna betur til mergjar. En hvað sem því líður er hyggilegt að forgangsraða viðfangsefnum í stjórnarskrármálinu með hliðsjón af öðrum markmiðum. Hitt er áhættusækni að færast meira í fang en víst er að menn ráða við. Það er varasamt í pólitík eins og bönkum.