Hvenær á ráðherra að segja af sér? Þorsteinn Pálsson skrifar 8. september 2012 06:00 Formaður þingflokks VG og prófessor í stjórnmálafræðum við Háskóla Íslands hafa af tveimur ólíkum tilefnum sett fram sjónarmið um afsögn Ögmundar Jónassonar. Við venjulegar aðstæður fylgir bæði þungi og ábyrgð orðum þeirra sem slíkum stöðum gegna. Þau ættu því að hafa veruleg áhrif. En í reynd sýnast bæði stjórnmálamenn og fjölmiðlar vega orð þeirra eins og fis sem hverfur með golunni. Það ætti að vera þeim nokkurt umhugsunarefni. Stjórnmálafræðiprófessorinn fullyrti að opinber tilvísun Ögmundar Jónassonar í ágreining sem hann gerði í ríkisstjórn, þegar hún samþykkti að stefna Íslands væri að taka upp evru, væri einsdæmi. Það er ekki rétt enda hefur aldrei verið litið svo á að lög hindruðu ráðherra í að greina frá eigin afstöðu í ríkisstjórn. Þá taldi prófessorinn að ráðherra sem opinberlega er andvígur grundvallarstefnu ríkisstjórnar sinnar ætti að segja af sér. Það sem máli skiptir í þessu samhengi er að allir ráðherrar og þingmenn VG verja í verki samþykkt ríkisstjórnarinnar um að stefna að upptöku evru svo fljótt sem kostur er og því megi lýsa yfir gagnvart ríkjum Evrópusambandsins. Siðferðisbresturinn er sá að þeir segjast vera á móti því sem þeir verja en ætli síðar að standa gegn því að samningar þar um verði fullgiltir. Með þessu hafa þeir vissulega tyllt sér á eina af lægstu syllunum í bjargi pólitískrar siðfræði. En Ögmundur Jónasson er þar ekki einn. Ráðherrar VG eru þar í hnapp. Réttilega ætti því að beina siðferðiskröfunni gagnvart þeim öllum. Hvers vegna gerir prófessorinn það ekki? Á Ögmundur að gjalda þess að hann sýnist órórri á syllunni en aðrir?Vinir með hnífa og óvinir með skildi Úrskurðarnefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að skipun innanríkisráðherra í sýslumannsembætti hefði verið brot á jafnréttislögum. Af því tilefni hafa samherjar ráðherrans í VG og forsætisráðherra rispað hann nokkuð með hnífum sínum. Nokkrir móthaldsmenn úr röðum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna hafa á hinn bóginn skotið fyrir ráðherrann skildi. Rökin eru þau að hann sé ekki í verri stöðu en forsætisráðherra sem bæði hefur tapað jafnréttismáli fyrir úrskurðarnefndinni og dómstólum. En ástæðan er trúlega sú að það er brúarsmíði í gangi milli þessara aðila vegna Evrópuandstöðunnar. Formaður þingflokks VG setti fram þá kenningu að ráðherrann yrði að segja af sér kæmust dómstólar að sömu niðurstöðu og úrskurðarnefndin. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að einungis eru tvær leiðir til að koma málinu fyrir dómstóla. Önnur er sú að ráðherrann höfði mál til ógildingar á úrskurði nefndarinnar. Hin er sú að ráðherrann neiti að greiða bótakröfu sem reist kann að verða á úrskurðinum. Er það virkilega svo að formaður þingflokks VG telji að það bæti siðferðilega stöðu flokksins í jafnréttismálum að ráðherra hans véfengi þennan úrskurð eða hafni bótakröfu sem hann gefur fullt efni til? Eftir þessi ummæli þingflokksformannsins er ráðherrann svo kominn í þá klípu að samþykki hann hugsanlega bótakröfu mætti segja að hann væri að kaupa sig frá dómsmáli með peningum skattborgaranna. Þingflokksformaðurinn hefur því breytt óþægilegri stöðu fyrir flokkinn í lokaða.Mátti ráðherrann vita? Stóra spurningin er þessi: Á það sjálfkrafa að leiða til afsagnar ef ákvörðun ráðherra stenst ekki lög þegar á reynir? Svarið er: Stundum er það svo en þarf ekki alltaf að vera það. Hafa verður í huga að hæfileikar umsækjenda verða ekki í þessu tilviki fremur en öðrum reiknaðir út eftir stærðfræðiformúlu. Hér verður því að skoða hvort þau gögn sem lögð voru fyrir ráðherrann af embættismönnum gáfu honum ástæðu til að efast um það faglega mat sem hann er ábyrgur fyrir. Einnig þarf að skoða hvort ráðherrann hafi óskað eftir nægjanlegum upplýsingum til þess að geta tekið faglega ákvörðun. Ef kalla á eftir afsögn ráðherrans þarf að vera unnt að sýna fram á að hann hafi mátt vita að ákvörðun hans stæðist ekki kröfur jafnréttislaga. Ekki er unnt að útiloka að svo hafi verið. Enn sem komið er hefur þó ekkert verið dregið fram í umræðunni sem styður slíka ályktun. Við svo búið stendur málsvörn ráðherrans. Niðurstaðan er sú að hnífrispur samherja innanríkisráðherrans virðast reistar á öðru en virðingu fyrir jafnréttislögum og háum siðferðisviðmiðum. Forsætisráðherra og formaður VG eru sjálfir í þeirri siðferðiskreppu að geta hvorki sótt að ráðherranum né varið hann svo mark sé á takandi. Það lýsir pólitísku innanmeini sem háir ríkisstjórninni gagnvart kjósendum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Formaður þingflokks VG og prófessor í stjórnmálafræðum við Háskóla Íslands hafa af tveimur ólíkum tilefnum sett fram sjónarmið um afsögn Ögmundar Jónassonar. Við venjulegar aðstæður fylgir bæði þungi og ábyrgð orðum þeirra sem slíkum stöðum gegna. Þau ættu því að hafa veruleg áhrif. En í reynd sýnast bæði stjórnmálamenn og fjölmiðlar vega orð þeirra eins og fis sem hverfur með golunni. Það ætti að vera þeim nokkurt umhugsunarefni. Stjórnmálafræðiprófessorinn fullyrti að opinber tilvísun Ögmundar Jónassonar í ágreining sem hann gerði í ríkisstjórn, þegar hún samþykkti að stefna Íslands væri að taka upp evru, væri einsdæmi. Það er ekki rétt enda hefur aldrei verið litið svo á að lög hindruðu ráðherra í að greina frá eigin afstöðu í ríkisstjórn. Þá taldi prófessorinn að ráðherra sem opinberlega er andvígur grundvallarstefnu ríkisstjórnar sinnar ætti að segja af sér. Það sem máli skiptir í þessu samhengi er að allir ráðherrar og þingmenn VG verja í verki samþykkt ríkisstjórnarinnar um að stefna að upptöku evru svo fljótt sem kostur er og því megi lýsa yfir gagnvart ríkjum Evrópusambandsins. Siðferðisbresturinn er sá að þeir segjast vera á móti því sem þeir verja en ætli síðar að standa gegn því að samningar þar um verði fullgiltir. Með þessu hafa þeir vissulega tyllt sér á eina af lægstu syllunum í bjargi pólitískrar siðfræði. En Ögmundur Jónasson er þar ekki einn. Ráðherrar VG eru þar í hnapp. Réttilega ætti því að beina siðferðiskröfunni gagnvart þeim öllum. Hvers vegna gerir prófessorinn það ekki? Á Ögmundur að gjalda þess að hann sýnist órórri á syllunni en aðrir?Vinir með hnífa og óvinir með skildi Úrskurðarnefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að skipun innanríkisráðherra í sýslumannsembætti hefði verið brot á jafnréttislögum. Af því tilefni hafa samherjar ráðherrans í VG og forsætisráðherra rispað hann nokkuð með hnífum sínum. Nokkrir móthaldsmenn úr röðum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna hafa á hinn bóginn skotið fyrir ráðherrann skildi. Rökin eru þau að hann sé ekki í verri stöðu en forsætisráðherra sem bæði hefur tapað jafnréttismáli fyrir úrskurðarnefndinni og dómstólum. En ástæðan er trúlega sú að það er brúarsmíði í gangi milli þessara aðila vegna Evrópuandstöðunnar. Formaður þingflokks VG setti fram þá kenningu að ráðherrann yrði að segja af sér kæmust dómstólar að sömu niðurstöðu og úrskurðarnefndin. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að einungis eru tvær leiðir til að koma málinu fyrir dómstóla. Önnur er sú að ráðherrann höfði mál til ógildingar á úrskurði nefndarinnar. Hin er sú að ráðherrann neiti að greiða bótakröfu sem reist kann að verða á úrskurðinum. Er það virkilega svo að formaður þingflokks VG telji að það bæti siðferðilega stöðu flokksins í jafnréttismálum að ráðherra hans véfengi þennan úrskurð eða hafni bótakröfu sem hann gefur fullt efni til? Eftir þessi ummæli þingflokksformannsins er ráðherrann svo kominn í þá klípu að samþykki hann hugsanlega bótakröfu mætti segja að hann væri að kaupa sig frá dómsmáli með peningum skattborgaranna. Þingflokksformaðurinn hefur því breytt óþægilegri stöðu fyrir flokkinn í lokaða.Mátti ráðherrann vita? Stóra spurningin er þessi: Á það sjálfkrafa að leiða til afsagnar ef ákvörðun ráðherra stenst ekki lög þegar á reynir? Svarið er: Stundum er það svo en þarf ekki alltaf að vera það. Hafa verður í huga að hæfileikar umsækjenda verða ekki í þessu tilviki fremur en öðrum reiknaðir út eftir stærðfræðiformúlu. Hér verður því að skoða hvort þau gögn sem lögð voru fyrir ráðherrann af embættismönnum gáfu honum ástæðu til að efast um það faglega mat sem hann er ábyrgur fyrir. Einnig þarf að skoða hvort ráðherrann hafi óskað eftir nægjanlegum upplýsingum til þess að geta tekið faglega ákvörðun. Ef kalla á eftir afsögn ráðherrans þarf að vera unnt að sýna fram á að hann hafi mátt vita að ákvörðun hans stæðist ekki kröfur jafnréttislaga. Ekki er unnt að útiloka að svo hafi verið. Enn sem komið er hefur þó ekkert verið dregið fram í umræðunni sem styður slíka ályktun. Við svo búið stendur málsvörn ráðherrans. Niðurstaðan er sú að hnífrispur samherja innanríkisráðherrans virðast reistar á öðru en virðingu fyrir jafnréttislögum og háum siðferðisviðmiðum. Forsætisráðherra og formaður VG eru sjálfir í þeirri siðferðiskreppu að geta hvorki sótt að ráðherranum né varið hann svo mark sé á takandi. Það lýsir pólitísku innanmeini sem háir ríkisstjórninni gagnvart kjósendum.