Tónlist

Geiri Sæm tekur Froðuna aftur

Geiri Sæm
Geiri Sæm Fréttablaðið/Anton
Tónlistarmaðurinn Ásgeir Sæmundsson, betur þekktur sem Geiri Sæm, tekur meðal annars gamla smellinn sinn Froðuna með hljómsveitinni Kiriyama Family á menningarnótt.

Kiriyama Family hefur flutt fyrrnefndan slagara á tónleikum sínum í sumar, þar á meðal á Húkkaraballinu á Þjóðhátíð. Útvarpsmaðurinn Frosti Logason var á dansgólfinu og ákvað eftir flutninginn að leiða saman tónlistarmennina. Þeir hafa nú verið við æfingar og troða upp á tónleikum útvarpsstöðvarinnar X-ins 97,7 sem fara fram í bakgarði Ellefunnar á Hverfisgötu 18.

„Ég hugsa að ég hafi haldið síðustu opinberu tónleikana mína um ‘92 eða ‘93 þó ég hafi eitthvað verið að koma fram með ýmsum aðilum,“ segir Geiri sem var hvað frægastur á níunda áratugnum.

„Ég heyrði Froðuna aftur fyrir slysni á Stöð 2 fyrir nokkrum mánuðum og í kjölfarið varð þetta að partíslagara hjá vinahópnum,“ segir Jóhann V. Vilbergsson meðlimur Kiriyama Family. Sveitin hóf í kjölfarið að flytja Froðuna. „Okkur fannst þetta svo æðislegt lag og við fílum einfaldlega góða tónlist.”

Geiri er ánægður með samstarfið og segir fyrstu æfinguna hafa gengið vonum framar. „Þeir voru mjög vel undirbúnir og ljúfir og yndislegir drengir svo þetta steinlá.“

Tónleikarnir hefjast klukkan átta um kvöldið og verður fyrrnefndur slagari fluttur um tíuleytið.- hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.