Ekkert "en“ Stígur Helgason skrifar 15. ágúst 2012 11:00 Viðbrögðin við þátttöku Jóns Gnarr í baráttugöngu hinsegin fólks um helgina voru fyrirsjáanleg. Þótt margir – og kannski flestir – hafi fagnað henni þá voru líka hinir sem máttu ekki til þess vita að Jón eyddi dýrmætum tíma sínum í að berjast fyrir mannréttindum þegar hann ætti með réttu að vera að sinna mikilsverðum hagsmunamálum borgarbúa. Eins og hann hefði annars varið laugardagseftirmiðdeginum í að tryggja börnum ódýrar skólamáltíðir. Þetta sjónarmið flaut upp á yfirborðið í athugasemdakerfum vefmiðlanna, eins og í fyrra og hittiðfyrra og eins og þau munu líklega gera enn einu sinni að ári. Nú getum við Reykvíkingar – og landsmenn svo sem allir – verið ósammála um hversu langt ruslaföturnar eigi að vera frá götunum okkar og hvernig þær skuli vera á litinn, hversu neðarlega eigi að loka Laugaveginum fyrir bílaumferð á sumrin, hvort rétt sé að sameina þessa skóla eða hina og hvort útsvar eigi að vera 14,4 prósent eða 14,48 prósent. Og þegar við erum ósátt eigum við að láta í okkur heyra. Jón Gnarr var kosinn til að hlusta á það. Þegar við hins vegar sjáum borgarstjórann okkar standa í bleikum kjól með appelsínugula lambhúshettu í stafni vagns sem krefst sjálfsagðra mannréttinda til handa femínískri, rússneskri pönkhljómsveit sem situr inni fyrir það eitt að vera femínísk, rússnesk og pönkhljómsveit, og það nokkrum vikum eftir að hann storkar gamaldags viðhorfum í Færeyjum í opinberri heimsókn, þá eigum við að hafa manndóm í okkur til að segja með stolti: Þetta er frábært, sama hvar við stöndum í pólitík og án þess að því þurfi að fylgja einhver „en". Það er nefnilega ekki sjálfgefið að einn æðsti embættismaður landsins bjóði ofsóttum rithöfundum annarra landa hæli, neiti í nafni friðar að hitta erlenda hershöfðingja og afhendi framkvæmdastjóra kínverska kommúnistaflokksins mótmælabréf vegna meðferðarinnar á Nóbelsskáldinu Liu Xiaobo. Við eigum nóg af stjórnmálamönnum sem kinka bara kolli og brosa. Til að koma umheiminum í skilning um að mannréttindin sem við búum við hafi kostað streð en séu ekki til komin af engu þurfum við fólk sem nennir ekki að reyna að koma sér í mjúkinn öllum stundum. Þar – í hinni alþjóðlegu mannréttindabaráttu, hvorki meira né minna – hefur Jón Gnarr látið rækilega að sér kveða og það út af fyrir sig er fagnaðarefni. Algjörlega óháð því hversu mikið okkur finnst að eigi að kosta í stöðumæla á Skólavörðustíg. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Stígur Helgason Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Viðbrögðin við þátttöku Jóns Gnarr í baráttugöngu hinsegin fólks um helgina voru fyrirsjáanleg. Þótt margir – og kannski flestir – hafi fagnað henni þá voru líka hinir sem máttu ekki til þess vita að Jón eyddi dýrmætum tíma sínum í að berjast fyrir mannréttindum þegar hann ætti með réttu að vera að sinna mikilsverðum hagsmunamálum borgarbúa. Eins og hann hefði annars varið laugardagseftirmiðdeginum í að tryggja börnum ódýrar skólamáltíðir. Þetta sjónarmið flaut upp á yfirborðið í athugasemdakerfum vefmiðlanna, eins og í fyrra og hittiðfyrra og eins og þau munu líklega gera enn einu sinni að ári. Nú getum við Reykvíkingar – og landsmenn svo sem allir – verið ósammála um hversu langt ruslaföturnar eigi að vera frá götunum okkar og hvernig þær skuli vera á litinn, hversu neðarlega eigi að loka Laugaveginum fyrir bílaumferð á sumrin, hvort rétt sé að sameina þessa skóla eða hina og hvort útsvar eigi að vera 14,4 prósent eða 14,48 prósent. Og þegar við erum ósátt eigum við að láta í okkur heyra. Jón Gnarr var kosinn til að hlusta á það. Þegar við hins vegar sjáum borgarstjórann okkar standa í bleikum kjól með appelsínugula lambhúshettu í stafni vagns sem krefst sjálfsagðra mannréttinda til handa femínískri, rússneskri pönkhljómsveit sem situr inni fyrir það eitt að vera femínísk, rússnesk og pönkhljómsveit, og það nokkrum vikum eftir að hann storkar gamaldags viðhorfum í Færeyjum í opinberri heimsókn, þá eigum við að hafa manndóm í okkur til að segja með stolti: Þetta er frábært, sama hvar við stöndum í pólitík og án þess að því þurfi að fylgja einhver „en". Það er nefnilega ekki sjálfgefið að einn æðsti embættismaður landsins bjóði ofsóttum rithöfundum annarra landa hæli, neiti í nafni friðar að hitta erlenda hershöfðingja og afhendi framkvæmdastjóra kínverska kommúnistaflokksins mótmælabréf vegna meðferðarinnar á Nóbelsskáldinu Liu Xiaobo. Við eigum nóg af stjórnmálamönnum sem kinka bara kolli og brosa. Til að koma umheiminum í skilning um að mannréttindin sem við búum við hafi kostað streð en séu ekki til komin af engu þurfum við fólk sem nennir ekki að reyna að koma sér í mjúkinn öllum stundum. Þar – í hinni alþjóðlegu mannréttindabaráttu, hvorki meira né minna – hefur Jón Gnarr látið rækilega að sér kveða og það út af fyrir sig er fagnaðarefni. Algjörlega óháð því hversu mikið okkur finnst að eigi að kosta í stöðumæla á Skólavörðustíg.