Er möguleiki á framhaldslífi? Þorsteinn Pálsson skrifar 11. ágúst 2012 06:00 Stjórnarflokkarnir unnu kosningasigur allra tíma fyrir þremur árum. Skoðanakannanir sýna að samanlagt fylgi þeirra er nú nærri fjörutíu prósent minna. Þegar rúmir átta mánuðir eru til kosninga er þrátt fyrir þetta alls ekki víst að dagar ríkisstjórnarinnar séu taldir. Hún gæti átt möguleika á framhaldslífi. Í síðustu kosningum sat Sjálfstæðisflokkurinn uppi með pólitíska ábyrgð á hruni krónunnar og falli bankanna. Afhroð var því óhjákvæmilegt. Hann hefur bætt stöðu sína verulega án þess þó að líkur á stjórnaraðild séu að sama skapi meiri. Framsóknarflokkurinn axlaði líka pólitíska ábyrgð á hruninu þótt hann væri utan stjórnar þegar það varð. Honum hefur ekki tekist að hagnýta stöðu sína í stjórnarandstöðu til að auka fylgið. Það sýnir að hringlandaháttur, upphrópanir og Evrópuandstaða eru ekki sjálfgefin efni í uppskrift að góðum bakstri í pólitík. Þrír smáflokkar á vinstri vængnum eiga nú fulltrúa á Alþingi. Nái þeir ekki flugi á næstu mánuðum duga þeir ekki til að gefa ríkisstjórninni framhaldslíf. Einn smáflokkur til hægri stefnir á framboð. Eins og sakir standa virðist það ekki breyta miklu um möguleika Sjálfstæðisflokksins á stjórnarmyndun. Jafnvel er tvísýnt um að samstarf við Framsóknarflokkinn dugi til meirihlutastjórnar. Af þessu má ráða að framhaldslíf ríkisstjórnarinnar veltur á því hvort henni tekst að fá Framsóknarflokkinn og einn eða tvo af smáflokkunum til liðs við sig. Að öllu óbreyttu verður að telja meiri líkur en minni á að svo fari. Stjórnarstefnan yrði óbreytt en hrossakaupin meiri um einstök hugðarefni.Flokksmálin eru veikleiki Stjórnarflokkarnir áttu alla möguleika á að grípa til markvissra aðgerða í efnahagsmálum og skella um leið skuldinni af óvinsælum ráðstöfunum á stjórnarandstöðuna. Það tókst í byrjun að því er varðar ríkisfjármálin. En eftir að efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lauk hefur málefnastaðan veikst. Lausatök á ríkisfjármálum er ein mesta váin sem þjóðin stendur andspænis. Þau eru hins vegar heldur til vinsælda fallin meðan unnt er að fá lán og halda hluta útgjaldanna utan ríkisbókhaldsins. Ríkisstjórnin ætlar að nota þetta svigrúm til að sannfæra þjóðina um efnahagslegan uppgang. Það bragð gæti dugað í nokkra mánuði. Hugsanlega má fá fólk til að trúa því að í raun hafi tekist betur til hér en annars staðar. Þó að það sýnist í fyrstu þverstæðukennt er það samt svo að síbylja Morgunblaðsins gegn stefnu þeirra ríkja sem sýnt hafa mesta efnahagslega ábyrgð á evrusvæðinu hjálpar ríkisstjórninni með þessa tálsýn. Þá virðist ríkisstjórnin gera ráð fyrir að vinsældir hennar aukist ef henni tekst að ná höfuðstefnumálum sínum fram. Þau endurspegla hins vegar þá pólitísku klípu Samfylkingarinnar að hún er nær því að vera sósíalískur vinstri flokkur en jafnaðarmannaflokkur. Náist þessi mál fram mun það styrkja forystuna inn á við en veikja flokkinn að sama skapi út á við gagnvart jaðarfylginu hægra megin sem er að yfirgefa hann. Betra gengi með flokksmálin er því ekki endilega ávísun á meira kjörfylgi, nema síður sé.Vandi stjórnarandstöðunnar Þó að Framsóknarflokkurinn hafi verið í harðri stjórnarandstöðu er ólíklegt að hann vilji láta kosningarnar snúast um það hvort stjórnarandstaðan eigi að leysa ríkisstjórnina af hólmi. Hann mun því halda hinum kostinum jafn opnum að ganga til liðs við ríkisstjórnina. Það þýðir aftur að enginn veit fyrir hvað flokkurinn stendur. Hann á því litla möguleika á berja í bresti trúverðugleikans. Vandi Sjálfstæðisflokksins er sá að hann getur ekki bent á Framsóknarflokkinn sem öruggan samstarfsflokk. Þá mun Morgunblaðið ekki fallast á samstarf við Samfylkinguna jafnvel þó að svo ólíklega færi að hægri armur hennar næði undirtökunum. Málefnalega er síðan erfitt að benda á VG sem eftirsóknarverðan kost til vinna með. Til að bæta úr þessu þarf Sjálfstæðisflokkurinn að sýna skýrari áætlun um hvernig ná á Íslandi út úr pólitískri blindgötu stjórnarflokkanna í efnahagsmálum og trúverðugri hugmyndir um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu til lengri tíma. Jafnframt þurfa fleiri stjórnarmyndunarkostir en Framsóknarflokkurinn að vera sýnilegir. Að þessu virtu virðist Sjálfstæðisflokkurinn eiga meiri möguleika en aðrir til að koma ár sinni betur fyrir borð fái hann meiri tíma. Ekki er þó víst að honum takist að nýta hann til þess eða hafi hug á því. En eini öruggi krókur stjórnarflokkanna á móti slíku bragði er að efna til kosninga í haust. Herkænska af því tægi er þó heldur ólíkleg. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Stjórnarflokkarnir unnu kosningasigur allra tíma fyrir þremur árum. Skoðanakannanir sýna að samanlagt fylgi þeirra er nú nærri fjörutíu prósent minna. Þegar rúmir átta mánuðir eru til kosninga er þrátt fyrir þetta alls ekki víst að dagar ríkisstjórnarinnar séu taldir. Hún gæti átt möguleika á framhaldslífi. Í síðustu kosningum sat Sjálfstæðisflokkurinn uppi með pólitíska ábyrgð á hruni krónunnar og falli bankanna. Afhroð var því óhjákvæmilegt. Hann hefur bætt stöðu sína verulega án þess þó að líkur á stjórnaraðild séu að sama skapi meiri. Framsóknarflokkurinn axlaði líka pólitíska ábyrgð á hruninu þótt hann væri utan stjórnar þegar það varð. Honum hefur ekki tekist að hagnýta stöðu sína í stjórnarandstöðu til að auka fylgið. Það sýnir að hringlandaháttur, upphrópanir og Evrópuandstaða eru ekki sjálfgefin efni í uppskrift að góðum bakstri í pólitík. Þrír smáflokkar á vinstri vængnum eiga nú fulltrúa á Alþingi. Nái þeir ekki flugi á næstu mánuðum duga þeir ekki til að gefa ríkisstjórninni framhaldslíf. Einn smáflokkur til hægri stefnir á framboð. Eins og sakir standa virðist það ekki breyta miklu um möguleika Sjálfstæðisflokksins á stjórnarmyndun. Jafnvel er tvísýnt um að samstarf við Framsóknarflokkinn dugi til meirihlutastjórnar. Af þessu má ráða að framhaldslíf ríkisstjórnarinnar veltur á því hvort henni tekst að fá Framsóknarflokkinn og einn eða tvo af smáflokkunum til liðs við sig. Að öllu óbreyttu verður að telja meiri líkur en minni á að svo fari. Stjórnarstefnan yrði óbreytt en hrossakaupin meiri um einstök hugðarefni.Flokksmálin eru veikleiki Stjórnarflokkarnir áttu alla möguleika á að grípa til markvissra aðgerða í efnahagsmálum og skella um leið skuldinni af óvinsælum ráðstöfunum á stjórnarandstöðuna. Það tókst í byrjun að því er varðar ríkisfjármálin. En eftir að efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lauk hefur málefnastaðan veikst. Lausatök á ríkisfjármálum er ein mesta váin sem þjóðin stendur andspænis. Þau eru hins vegar heldur til vinsælda fallin meðan unnt er að fá lán og halda hluta útgjaldanna utan ríkisbókhaldsins. Ríkisstjórnin ætlar að nota þetta svigrúm til að sannfæra þjóðina um efnahagslegan uppgang. Það bragð gæti dugað í nokkra mánuði. Hugsanlega má fá fólk til að trúa því að í raun hafi tekist betur til hér en annars staðar. Þó að það sýnist í fyrstu þverstæðukennt er það samt svo að síbylja Morgunblaðsins gegn stefnu þeirra ríkja sem sýnt hafa mesta efnahagslega ábyrgð á evrusvæðinu hjálpar ríkisstjórninni með þessa tálsýn. Þá virðist ríkisstjórnin gera ráð fyrir að vinsældir hennar aukist ef henni tekst að ná höfuðstefnumálum sínum fram. Þau endurspegla hins vegar þá pólitísku klípu Samfylkingarinnar að hún er nær því að vera sósíalískur vinstri flokkur en jafnaðarmannaflokkur. Náist þessi mál fram mun það styrkja forystuna inn á við en veikja flokkinn að sama skapi út á við gagnvart jaðarfylginu hægra megin sem er að yfirgefa hann. Betra gengi með flokksmálin er því ekki endilega ávísun á meira kjörfylgi, nema síður sé.Vandi stjórnarandstöðunnar Þó að Framsóknarflokkurinn hafi verið í harðri stjórnarandstöðu er ólíklegt að hann vilji láta kosningarnar snúast um það hvort stjórnarandstaðan eigi að leysa ríkisstjórnina af hólmi. Hann mun því halda hinum kostinum jafn opnum að ganga til liðs við ríkisstjórnina. Það þýðir aftur að enginn veit fyrir hvað flokkurinn stendur. Hann á því litla möguleika á berja í bresti trúverðugleikans. Vandi Sjálfstæðisflokksins er sá að hann getur ekki bent á Framsóknarflokkinn sem öruggan samstarfsflokk. Þá mun Morgunblaðið ekki fallast á samstarf við Samfylkinguna jafnvel þó að svo ólíklega færi að hægri armur hennar næði undirtökunum. Málefnalega er síðan erfitt að benda á VG sem eftirsóknarverðan kost til vinna með. Til að bæta úr þessu þarf Sjálfstæðisflokkurinn að sýna skýrari áætlun um hvernig ná á Íslandi út úr pólitískri blindgötu stjórnarflokkanna í efnahagsmálum og trúverðugri hugmyndir um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu til lengri tíma. Jafnframt þurfa fleiri stjórnarmyndunarkostir en Framsóknarflokkurinn að vera sýnilegir. Að þessu virtu virðist Sjálfstæðisflokkurinn eiga meiri möguleika en aðrir til að koma ár sinni betur fyrir borð fái hann meiri tíma. Ekki er þó víst að honum takist að nýta hann til þess eða hafi hug á því. En eini öruggi krókur stjórnarflokkanna á móti slíku bragði er að efna til kosninga í haust. Herkænska af því tægi er þó heldur ólíkleg.