Bakþankar

Friðarloginn

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Ég er af þeirri kynslóð sem man ógnina af kjarnorkuvopnum. Reglulega hlustaði maður á fregnir af því að samanlagður sprengikraftur vopnabúrs Bandaríkjanna og Sovétríkjanna dygði nú til að eyða jörðinni margoft. Og eftir því sem árin liðu var hægt að eyða jörðinni oftar, eins og einu sinni væri ekki nóg. Það er ekki nema von að dimm nýbylgjutónlist og volæðislegir textar hafi heillað ungmenni þessa tíma. Það hefur áhrif á lífsgleðina að heyra reglulega að möguleikinn á að tortíma jörðinni sé í höndum bjána eins og leiðtoga Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

Sem betur fer vomir þessi kjarnorkuógn ekki sífellt yfir okkur í dag. Það breytir því þó ekki að ógnin er til staðar. Kjarnorkuvopnabúr heimsins geyma um 30 þúsund kjarnaodda með um fimm þúsund megatonna sprengikraft. Talið er að séu 100 megatonn sprengd í andrúmsloftinu þýði það kjarnorkuvetur. Þeir misvitru leiðtogar sem nú véla um þessi vopn bera því ansi mikla ábyrgð.

Nú er 21 ár síðan Sovétríkin liðu undir lok en ennþá hafa þau áhrif á hugsunarhátt furðulega margra. Enn furðulegra er að þar fara fremstir í flokki þeir sem voru hörðustu andstæðingar þeirra. Alþjóðasamfélagið hefur ekki getað lagað sig að því tómarúmi sem fall Sovétríkjanna skapaði. Það sem hefði getað markað upphaf afvopnunar og þýðu í samskiptum landa í millum, hefur einkennst af sama gamla valdboði hins sterka.

Íslendingar eru engir hér eftirbátar. Það virðist engu skipta úr hvaða flokkum ráðamenn koma, alltaf skal þátttaka í hernaðarbandalagi vera heilög. Frekar hafa stjórnvöld bætt í kostnaðinn en hitt síðustu árin.

Ríki þessa heims eyddu árið 2011 1,74 milljón milljónir í framleiðslu vopna. Það er mikið. Svo mikið að eins væri hægt að segja skrilljón brilljón frilljónir, upphæðin er jafn óskiljanleg. Við eyðum núna meira í vopnaframleiðslu en við gerðum í kalda stríðinu. Fjölmörg hagkerfi eru keyrð áfram af vopnaframleiðslu og eins og með flestar vörur vilja menn nota vopnin sín.

Mannkynið hefur þróast sorglega lítið í átt til friðar á síðustu áratugum. Nú eru 67 ár síðan Bandaríkin köstuðu kjarnorkusprengjum á Japan, til að sýna heiminum mátt sinn og megin og vernda líf hermanna sinna, á kostnað saklausra borgara. Þessa verður minnst með kertafleytingu á morgun og þó að heimurinn breytist ekki við að kveikja á kerti, er það samt ágætis byrjun. Friðarloginn getur kviknað af litlum neista.






×