Tónlist

Stelpurnar elska mig

vinsæll og veit af því "Fyrsti diskurinn heitir Potturinn og hann alveg steinliggur þegar maður liggur í heita pottinum,“ segir Siggi Hlö um nýja plötu sína. fréttablaðið/pjetur
vinsæll og veit af því "Fyrsti diskurinn heitir Potturinn og hann alveg steinliggur þegar maður liggur í heita pottinum,“ segir Siggi Hlö um nýja plötu sína. fréttablaðið/pjetur
„Ég veit ekki betur en að ég sé með eina þátt landsins sem býður upp á að fólk geti hringt inn og flippað og verið í stuði," segir útvarpsmaðurinn og plötusnúðurinn Sigurður Hlöðversson, einnig þekktur sem Siggi Hlö, eða Hlö-vélin.

Siggi sendi nýlega frá sér þreföldu safnplötuna Pottapartý með Sigga Hlö. Platan er fjórða safnplatan sem kemur út í tengslum við útvarpsþáttinn Veistu hver ég var? sem er á Bylgjunni á laugardögum. Plöturnar hafa selst í yfir tíu þúsund eintökum og Siggi er handviss um vinsældir þeirrar nýjustu. „Þessi plata fer alveg pottþétt í gull, Sleikurinn mun sjá til þess."

Platan inniheldur 57 lög sem skiptast niður á þrjá diska. „Fyrsti diskurinn heitir Potturinn og hann alveg steinliggur þegar maður liggur í heita pottinum. Þar eru lög sem flestir þekkja og geta sungið með. Annar diskurinn er Partýið en fólk getur ekki annað en hent sér á dansgólfið þegar hann er settur í tækið. Þriðji diskurinn er svo Sleikurinn," segir Siggi en sá diskur er meira í rólega og rómantíska kantinum. „Það var alltaf þannig í gamla daga, áður en opnunartímar skemmtistaða breyttust, að öll kvöld enduðu á vangalagi. Þá gafst fólki tækifæri til að loka dílnum, eins og maður segir. Á Sleiknum er að finna lög sem margir tengja við atvik í lífinu þar sem tungur snertast. Það er bara svoleiðis," bætir hann við.

Á plötunum má finna perlur fortíðarinnar sem Siggi segir oft vandfundnar. En það eru ekki bara plöturnar sem hafa slegið í gegn því þættirnir hafa verið feykivinsælir meðal landans og að sögn Sigga er aðdáendahópurinn mikið að breytast.

„Fyrst voru þetta aðallega konur á mínum aldri en núna er mjög mikil hlustun hjá niður í tuttugu ára og jafnvel yngra," segir hann. Mikið er hringt inn í þáttinn og beðið um óskalög, en athygli hefur vakið að þættirnir þykja einkar vinsælir meðal vinkonuhópa. „Stelpurnar elska mig, það er alveg á hreinu."

tinnaros@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.