Tónlist

Lay Low í einkaflugvél milli landshluta

Lay Low og Smára Tarfi verða flogið í einkaflugvél vestur á firði þar sem Rauðasandur Festival fer fram um helgina en þau þurfa bæði að spila í Reykjavík á sama tíma.
Lay Low og Smára Tarfi verða flogið í einkaflugvél vestur á firði þar sem Rauðasandur Festival fer fram um helgina en þau þurfa bæði að spila í Reykjavík á sama tíma.
„Eftir mikla leit á öllum vígstöðvum stökk Guðmundur Már Þorvarðarson, vinur Smára Tarfs, til og reddaði flugvél," segir Kristín Andrea Þórðardóttir, einn aðstandenda tónlistarhátíðarinnar Rauðasandur Festival sem fer fram um helgina á Vestfjörðum.

Fjöldi íslenskra tónlistarmanna leggur leið sína vestur á firði um helgina en tveir þeirra, Lay Low og Smári Tarfur, lentu hins vegar í vandræðum er þau voru kölluð til að spila á tónleikum í Reykjavík á laugardaginn. Til að ekki þurfti að fresta neinum tónleikum varð lausnin því sú að leigja einkaflugvél sem ferjar tónlistarmennina á milli landshluta.

„Lay Low var skyndilega kölluð til af Of Monsters and Men því að þau eru með tónleika í Hljómskálagarðinum á morgun og vildu fá hana til að hita upp. Hún var með þeim á Bandaríkjatúrnum og því lá beinast við að hún yrði með á morgun líka," segir Kristín en Smári á einnig að spila síðdegis á laugardaginn í Reykjavík með hljómsveit sinni Ylju. „Þau spila því bæði sín sett í Reykjavík og fljúga svo beint vestur á einkaflugvél til að taka lagið hér. Þannig ná þau að spila fyrir alla og allir glaðir."

Rauðasandur Festival hefst í kvöld og stendur fram á sunnudag en hátíðin leggur áherslu á huggulega tónleika í fallegri náttúru. Auk Lay Low, Smára Tarfs og Ylju koma meðal annars fram Snorri Helgason, Prins Póló og Johnny Stronghands. -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.