Tíska og hönnun

Sýnir með Issey Miyake og Dior á tískuvikunni í París

Tískusýning Sruli Recht er orðin liður í opinberri dagskrá tískuvikunnar í París í haust.
Tískusýning Sruli Recht er orðin liður í opinberri dagskrá tískuvikunnar í París í haust. fréttablaðið/gva
„Sýning sem þessi er mjög mikilvæg hönnuðum sem vilja koma sér á framfæri á erlendum mörkuðum og setur okkur í flokk með stóru tískuhúsunum og ýtir undir áhuga kaupenda," segir fatahönnuðurinn Sruli Recht.

Tískusýning hans er nú liður í opinberri dagskrá tískuvikunnar í París í haust og mun hann sýna á sama tíma og tískuhús á borð við Issey Miyake, Pierre Cardin, Dior, Galliano, Hermés, Luis Vuitton og Rick Owens. Hægt er að skoða myndir frá sýningunni hér.

Sruli hefur fjórum sinnum áður tekið þátt í tískuvikunni í París en þetta er í fyrsta sinn sem sýning hans er liður í opinberri dagskrá tískuvikunnar. „Sýningin sem ég setti upp í janúar fékk það góð viðbrögð að okkur var boðið að sýna í Palais Brongniart í haust. Við höfum lagt ómælda vinnu í að undirbúa sýninguna og höfum meðal annars ráðið sýningarstjóra til að stýra sýningunni," segir Sruli sem vinnur ásamt átján manna teymi við að undirbúa herlegheitin. Hann mun sýna um tuttugu heildarklæðnaði á sýningunni sem fram fer í hinni gömlu kauphöll Parísar.

Þátttaka hans í tískuvikunni hefur vakið athygli erlendra kaupenda á hönnun hans og að hans sögn hafa um þrjátíu nýir aðilar sýnt merkinu áhuga, þar á meðal Saks Fifth Avenue-verslunin í New York. Verslunin var stofnuð árið 1898 og rekur einnig útibú í Dúbaí, Sádi-Arabíu og Mexíkó.

Sruli er uppalinn í Ástralíu en hefur verið búsettur á Íslandi undanfarin ár og rekur hönnunarverkstæðið Vopnabúrið á Granda. Sruli notar gjarnan íslenskt hráefni í hönnun sinni og vinnur hana í samstarfi við íslenska handverksmenn. Síðasta sumar sagði Fréttablaðið frá því að tónlistarmaðurinn Lenny Kravitz hefði fallið fyrir hönnun Sruli þegar herralína hans var sýnd í París og festi söngvarinn kaup á þó nokkuð af fatnaði og fylgihlutum úr línunni.

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×