Í leit að glötuðum tíma Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar 25. maí 2012 06:00 Í kvikmyndunum sér maður einstaklinga stundum spýta út úr sér kaffi eða öðrum drykk þegar viðkomandi les eða heyrir einhver tíðindi sem setja veröld hans á hvolf. Ég held að þetta gerist ekki í alvörunni, í það minnsta hef ég aldrei séð neinn bregðast svona við. Hins vegar komst ég glettilega nærri því að gera þetta nýlega þegar ég las áhugaverða grein í spjaldtölvunni heima með kaffibolla í hönd. Í greininni var leitast við að svara þeirri spurningu af hverju tíminn virðist líða hraðar eftir því sem fólk eldist. Áður en ég kem að niðurstöðu greinarinnar þá er réttast að skrifa smá formála. Ég er 23 ára gamall, reyki ekki, reyni að borða tiltölulega hollt og hreyfi mig nær daglega. Ég fer reyndar oftar á Kaffibarinn en hollt getur talist en geri fastlega ráð fyrir að heimsóknunum muni fækka nokkuð hratt eftir því sem ég eldist. Samantekið geri ég mér vonir um að eiga góð 60 ár eftir af ævi minni hið minnsta og er samkvæmt þeim tölum rétt skriðinn yfir fyrsta fjórðung hennar. Það var því ákveðið áfall að lesa í greininni að miðað við upplifun hins venjulega manns af ævi sinni væri ég sennilega þegar búinn að lifa hana hálfa. Hvernig getur það staðist? Jú, kenningin er sú að upplifun manns á eigin ævi stjórnist að mestu af nýjum upplifunum. Á barnsaldri er maður sífellt að upplifa nýja hluti, flest sem maður gerir er ferskt. Þess vegna virðast manni sem sumur barnæskunnar hafi verið heil eilífð á meðan maður er rétt byrjaður að njóta sumarsins þegar það er búið núna (ég geri mér grein fyrir því að eldri lesendur telja það sennilega stórskrýtið að 23 ára strákur sé að skrifa þetta). Með öðrum orðum þá er kenningin sú að þá tilfinningu að tíminn líði sífellt hraðar megi skýra með því að eftir því sem fólk eldist upplifi það sífellt færri nýja hluti. Kenningin byggir á þeirri vísindalegu niðurstöðu að heilastarfsemin breytist eftir því sem heilinn meðtekur meira af nýjum upplýsingum í einu. Sem sagt, því fleiri nýjar upplifanir, því meiri upplýsingar þarf heilinn að meðtaka og því hægar virðist tíminn líða. Ég var reyndar ekki lengi á að jafna mig á því áfalli að ég væri „upplifunarlega séð" tvöfalt eldri en ég stóð í trú um. Því í rauninni er þessi niðurstaða ekkert annað en rosalega góð áminning um að lifa fjölbreyttu lífi. Hafi maður áhyggjur af því að tíminn líði of hratt er nefnilega, að því er virðist, til mjög góð lausn. Einfaldlega sú að snara sér út úr þægindahringnum og gera eitthvað spánnýtt. Er það ekki ágætt markmið fyrir sumarið? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Þorlákur Lúðvíksson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Í kvikmyndunum sér maður einstaklinga stundum spýta út úr sér kaffi eða öðrum drykk þegar viðkomandi les eða heyrir einhver tíðindi sem setja veröld hans á hvolf. Ég held að þetta gerist ekki í alvörunni, í það minnsta hef ég aldrei séð neinn bregðast svona við. Hins vegar komst ég glettilega nærri því að gera þetta nýlega þegar ég las áhugaverða grein í spjaldtölvunni heima með kaffibolla í hönd. Í greininni var leitast við að svara þeirri spurningu af hverju tíminn virðist líða hraðar eftir því sem fólk eldist. Áður en ég kem að niðurstöðu greinarinnar þá er réttast að skrifa smá formála. Ég er 23 ára gamall, reyki ekki, reyni að borða tiltölulega hollt og hreyfi mig nær daglega. Ég fer reyndar oftar á Kaffibarinn en hollt getur talist en geri fastlega ráð fyrir að heimsóknunum muni fækka nokkuð hratt eftir því sem ég eldist. Samantekið geri ég mér vonir um að eiga góð 60 ár eftir af ævi minni hið minnsta og er samkvæmt þeim tölum rétt skriðinn yfir fyrsta fjórðung hennar. Það var því ákveðið áfall að lesa í greininni að miðað við upplifun hins venjulega manns af ævi sinni væri ég sennilega þegar búinn að lifa hana hálfa. Hvernig getur það staðist? Jú, kenningin er sú að upplifun manns á eigin ævi stjórnist að mestu af nýjum upplifunum. Á barnsaldri er maður sífellt að upplifa nýja hluti, flest sem maður gerir er ferskt. Þess vegna virðast manni sem sumur barnæskunnar hafi verið heil eilífð á meðan maður er rétt byrjaður að njóta sumarsins þegar það er búið núna (ég geri mér grein fyrir því að eldri lesendur telja það sennilega stórskrýtið að 23 ára strákur sé að skrifa þetta). Með öðrum orðum þá er kenningin sú að þá tilfinningu að tíminn líði sífellt hraðar megi skýra með því að eftir því sem fólk eldist upplifi það sífellt færri nýja hluti. Kenningin byggir á þeirri vísindalegu niðurstöðu að heilastarfsemin breytist eftir því sem heilinn meðtekur meira af nýjum upplýsingum í einu. Sem sagt, því fleiri nýjar upplifanir, því meiri upplýsingar þarf heilinn að meðtaka og því hægar virðist tíminn líða. Ég var reyndar ekki lengi á að jafna mig á því áfalli að ég væri „upplifunarlega séð" tvöfalt eldri en ég stóð í trú um. Því í rauninni er þessi niðurstaða ekkert annað en rosalega góð áminning um að lifa fjölbreyttu lífi. Hafi maður áhyggjur af því að tíminn líði of hratt er nefnilega, að því er virðist, til mjög góð lausn. Einfaldlega sú að snara sér út úr þægindahringnum og gera eitthvað spánnýtt. Er það ekki ágætt markmið fyrir sumarið?