Tímamót í mannréttindabaráttu Ólafur Þ. Stephensen skrifar 15. maí 2012 08:00 Það eru merkileg tímamót í réttindabaráttu samkynhneigðra þegar valdamesti maður heims, Barack Obama forseti Bandaríkjanna, lýsir yfir stuðningi við hjónaband fólks af sama kyni. Forveri hans, George W. Bush, var ekki eingöngu andvígur þessum réttindum heldur reyndi hann að fá stjórnarskrá Bandaríkjanna, því merka mannréttindaplaggi, breytt þannig að hún bannaði fólki að njóta þeirra. Þegar það er haft í huga er enn skýrara hversu mikil breyting hefur orðið í Hvíta húsinu á skömmum tíma. Obama hefur frá upphafi beitt sér fyrir bættum réttindum samkynhneigðra og meðal annars afnumið bann við því að fólk sem er opinberlega samkynhneigt gegni störfum í Bandaríkjaher. Hann hefur þó lengi, og að sumra mati of lengi, beðið með að kveða upp úr um afstöðu sína til þess hitamáls sem hjónaband samkynhneigðra er í Bandaríkjunum. Svo heitt er málið að Obama tekur sjálfsagt nokkra áhættu með því að opinbera skoðun sína. Meðal annars hefur verið bent á að á meðal þeldökkra og fólks af rómönskum uppruna, sem forsetinn sækir mikið fylgi til, er jafnframt mikil andstaða við hjónaband samkynhneigðra. Obama treystir því þó væntanlega að Mitt Romney frambjóðandi repúblikana eigi áfram svo lítinn hljómgrunn hjá þessum hópum að stefnubreyting í þessu máli verði ekki til þess að margir skipti um lið í forsetakosningunum sem framundan eru. Kosningarnar eru hvort sem er líklegar til að snúast fyrst og fremst um efnahagsmál og afstöðu frambjóðendanna til þeirra. Þótt yfirlýsing Obama verði hugsanlega til þess að bókstafstrúarmenn fylki sér um Romney, hleypir hún líka hans eigin stuðningsmönnum kapp í kinn, ekki sízt yngra menntafólki sem var hans harðasti stuðningsmannahópur fyrir fjórum árum. Viðhorfið til réttinda samkynhneigðra breytist hratt í Bandaríkjunum. Árið 2004 sögðust 60 prósent Bandaríkjamanna andvígir hjónabandi samkynhneigðra í könnun Pew Research. Nýleg könnun sömu stofnunar sýnir að andstæðingunum hefur fækkað í 43 prósent. Svo skjót breyting á afstöðu til samfélagsmála er ekki algeng í Bandaríkjunum. Gerbreytt afstaða yngra fólks skiptir mestu; tveir þriðju hlutar þeirra sem fæddir eru eftir 1980 sjá ekkert að því að samkynhneigðir njóti sömu réttinda og gagnkynhneigðir. Eftir því sem fleiri koma út úr skápnum eru líka fleiri sem eiga samkynhneigða vini og ættingja og vilja berjast fyrir réttindum þeirra. Enda vísaði Obama til þess í yfirlýsingu sinni að dætur hans ættu vini sem ættu samkynhneigða foreldra – og af hverju ættu þær að vilja að foreldrum vina þeirra væri mismunað? Ákvörðun Obama er til vitnis um pólitískt hugrekki og réttsýni forsetans. Hún hefur ekki bein eða skjót áhrif á réttindi samkynhneigðra í Bandaríkjunum, þar sem hjúskaparlöggjöfin er á hendi einstakra ríkja. Hún er hins vegar mikilvægt fordæmi víða um heim, þar sem fólk lítur upp til Obama sem manns sem vann stóran sigur fyrir hönd þeldökkra í Bandaríkjunum og tekur nú nýtt skref í baráttunni fyrir mannréttindum öllum til handa. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Stephensen Skoðanir Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Það eru merkileg tímamót í réttindabaráttu samkynhneigðra þegar valdamesti maður heims, Barack Obama forseti Bandaríkjanna, lýsir yfir stuðningi við hjónaband fólks af sama kyni. Forveri hans, George W. Bush, var ekki eingöngu andvígur þessum réttindum heldur reyndi hann að fá stjórnarskrá Bandaríkjanna, því merka mannréttindaplaggi, breytt þannig að hún bannaði fólki að njóta þeirra. Þegar það er haft í huga er enn skýrara hversu mikil breyting hefur orðið í Hvíta húsinu á skömmum tíma. Obama hefur frá upphafi beitt sér fyrir bættum réttindum samkynhneigðra og meðal annars afnumið bann við því að fólk sem er opinberlega samkynhneigt gegni störfum í Bandaríkjaher. Hann hefur þó lengi, og að sumra mati of lengi, beðið með að kveða upp úr um afstöðu sína til þess hitamáls sem hjónaband samkynhneigðra er í Bandaríkjunum. Svo heitt er málið að Obama tekur sjálfsagt nokkra áhættu með því að opinbera skoðun sína. Meðal annars hefur verið bent á að á meðal þeldökkra og fólks af rómönskum uppruna, sem forsetinn sækir mikið fylgi til, er jafnframt mikil andstaða við hjónaband samkynhneigðra. Obama treystir því þó væntanlega að Mitt Romney frambjóðandi repúblikana eigi áfram svo lítinn hljómgrunn hjá þessum hópum að stefnubreyting í þessu máli verði ekki til þess að margir skipti um lið í forsetakosningunum sem framundan eru. Kosningarnar eru hvort sem er líklegar til að snúast fyrst og fremst um efnahagsmál og afstöðu frambjóðendanna til þeirra. Þótt yfirlýsing Obama verði hugsanlega til þess að bókstafstrúarmenn fylki sér um Romney, hleypir hún líka hans eigin stuðningsmönnum kapp í kinn, ekki sízt yngra menntafólki sem var hans harðasti stuðningsmannahópur fyrir fjórum árum. Viðhorfið til réttinda samkynhneigðra breytist hratt í Bandaríkjunum. Árið 2004 sögðust 60 prósent Bandaríkjamanna andvígir hjónabandi samkynhneigðra í könnun Pew Research. Nýleg könnun sömu stofnunar sýnir að andstæðingunum hefur fækkað í 43 prósent. Svo skjót breyting á afstöðu til samfélagsmála er ekki algeng í Bandaríkjunum. Gerbreytt afstaða yngra fólks skiptir mestu; tveir þriðju hlutar þeirra sem fæddir eru eftir 1980 sjá ekkert að því að samkynhneigðir njóti sömu réttinda og gagnkynhneigðir. Eftir því sem fleiri koma út úr skápnum eru líka fleiri sem eiga samkynhneigða vini og ættingja og vilja berjast fyrir réttindum þeirra. Enda vísaði Obama til þess í yfirlýsingu sinni að dætur hans ættu vini sem ættu samkynhneigða foreldra – og af hverju ættu þær að vilja að foreldrum vina þeirra væri mismunað? Ákvörðun Obama er til vitnis um pólitískt hugrekki og réttsýni forsetans. Hún hefur ekki bein eða skjót áhrif á réttindi samkynhneigðra í Bandaríkjunum, þar sem hjúskaparlöggjöfin er á hendi einstakra ríkja. Hún er hins vegar mikilvægt fordæmi víða um heim, þar sem fólk lítur upp til Obama sem manns sem vann stóran sigur fyrir hönd þeldökkra í Bandaríkjunum og tekur nú nýtt skref í baráttunni fyrir mannréttindum öllum til handa.