Bakþankar

Excel-samfélagið

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Það fólk er til sem finnst ekkert fallegra en vel upp sett excel-skjal. Að tölur sem rétt er raðað upp í dálka fangi alla kima mannlífsins. Ef einungis debet- og kreditdálkar stangast á sé allt gott. Þetta er gott og blessað, en lífið er örlítið flóknara en svo. Excel getur verið hið besta forrit til að reikna og raða, en þar rúmast ekki mannlegir þættir.

Stundum læðist að manni sá grunur að íslenskt þjóðfélag sé orðið eitt stórt excel-skjal. Og kannski hefur það verið svo lengi. Flókin mál sem snerta víðfeðma þætti samfélagsins eru smættuð í tölur; krónur og aura. X mikið hefur verið sparað hér og það er gott. Útgjöld hafa ekki aukist nema um X þarna og það er líka gott. Því miður er enn X umframkeyrsla hér og á því þarf að vinna.

Tölur eru til ýmissa hluta notadrjúgar, en þær eru ekki upphaf og endir alls. Mannleg tilvera greinist sem betur fer í mun flóknari þætti. Þess vegna ætti að rýna betur á bak við tölur þegar þær eru lagðar fram.

er verið að skera niður um X krónur hér? Gott og vel, hvað þýðir það nákvæmlega fyrir líf og störf fólksins sem ákvörðunin snertir? Og hve margir eru það? Hve margir missa vinnuna? Hve margir þeirra eru eina fyrirvinnan? Hverjir þeirra eru líklegastir til að fá aðra vinnu og hve fljótt? Er verið að enda starfsævi einhvers of fljótt, þar sem ljóst er að viðkomandi mun ekki fá aðra vinnu þar sem íslenskt samfélag virðist álíta það að eldast vera meinsemd.

kannski fylgir það gráu hárunum en einhvern veginn finnst mér eins og fyrr á tíðum hafi gildi sem rúmast ekki í excel-skjali verið í hávegum höfð. Starfsaldur, tryggð og aldur viðkomandi hafi til dæmis vegið þungt þegar ákvarðanir þurfti að taka um framtíð þeirra. Kannski er það misskilningur, en nú virðist sem tölur í excel-skjali þeirra sem taka ákvarðanirnar skipti öllu. Mannlegu gildin hafi horfið.

hagvöxtur, hagnaður, arðsemi og hvað þetta nú allt heitir, er vissulega fyrirbæri sem þarf að hlúa að. Annars fer allt á hausinn, hvort sem er um fyrirtæki eða ríkiskassa að ræða. En mannlíf byggt á þessu einu er ekki sérstaklega spennandi fyrirbæri. Rekstrartölur eru fínar á markaðssíðum, ársreikningum og fjárlögum, en þær mega ekki verða eini mælikvarðinn á gott gengi.

æ ég veit ekki. Kannski er þetta ras í einföldum og auðtrúa manni. Það verður þá bara að hafa það. Íslenskt samfélag hefði hins vegar ekki nema gott af því að auka vægi hins mannlega. Því öll erum við jú menn.






×