Hundurinn inni, makinn úti Sif Sigmarsdóttir skrifar 27. apríl 2012 06:00 Heimasíða hótelsins lofaði hlýjum móttökum, framúrskarandi þjónustu, ljúffengum mat og mjúkum rúmum. Steven Preddy lét því slag standa og bókaði rómantískan helgarpakka fyrir sig og makann. Töskunum var skellt í skottið, hundinum í aftursætið og svo var ekið af stað. Helgin fór þó öðruvísi en á horfðist. Þrátt fyrir fögur fyrirheit fengu ekki allir jafnhlýjar móttökur á Chymorvah-hótelinu í Cornwall á Englandi. Hundurinn var jú velkominn. Makinn var það hins vegar ekki. Í janúar á síðasta ári voru eigendur hótelsins dæmdir til að greiða Steven Preddy og Martyn Hall 3.600 pund í skaðabætur. Hótelhöldurunum var fundið að sök að hafa brotið á mannréttindum Steven og Martyn er þeir neituðu þeim um gistingu á þeim forsendum að samkynhneigð gengi gegn trúarsannfæringu þeirra. Bresk stjórnvöld vinna nú að lagafrumvarpi sem heimila á giftingar samkynhneigðra. En þótt lög þar í landi leyfi ekki mismunun á grundvelli kynhneigðar stendur til að gefa einum krika samfélagsins undanþágu frá nýju hjúskaparlögunum. Ekki á að leyfa giftingar samkynhneigðra á vegum kirkjunnar eða annarra trúarsamtaka. Við Íslendingar eigum til að berja okkur á brjóst yfir meintri víðsýni í garð samkynhneigðra. Að ýmsu leyti megum við vera stolt af sjálfum okkur. Forsætisráðherra landsins er lesbía án þess að það þyki tiltökumál. Ísland varð níunda landið í heiminum til að leyfa hjónabönd samkynhneigðra. Gay pride er fjölskylduhátíð jafnvinsæl og 17. júní. En víða má gera betur. Hérlendis er prestum heimilt að gefa saman einstaklinga af sama kyni. Þeim er hins vegar í sjálfsvald sett hvort þeir geri það. Barþjónn gæti ekki neitað homma um afgreiðslu á bjór. Ekki frekar en blökkumanni eða gyðingi. Hvers vegna kirkjunni líðst að neita einum þjóðfélagshóp um þjónustu sína er með ólíkindum. Í vikunni var nýr biskup þjóðkirkjunnar kjörinn. Við slík tímamót er við hæfi að viðhorf kirkjunnar til samkynhneigðra sé sett á dagskrá á ný. Og hvort sem við stöndum innan eða utan kirkjunnar kemur umræðan okkur við. Afsláttur kirkjunnar á mannréttindum er ekki einkamál hennar heldur mál samfélagsins alls. Sjálfsmynd okkar Íslendinga er löskuð. Liðin er sú tíð að við getum kallað okkur mesta efnahagsundur í heimi; lítið hefur frést af fallegustu konum í heimi eftir að Icelandair seldi þær túristum í „dirty weekend"-pökkum. Staða mest „líbó" þjóðar í heimi er hins vegar laus. Hlotnist okkur hún verður Ísland sannarlega best í heimi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bakþankar Sif Sigmarsdóttir Skoðanir Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Heimasíða hótelsins lofaði hlýjum móttökum, framúrskarandi þjónustu, ljúffengum mat og mjúkum rúmum. Steven Preddy lét því slag standa og bókaði rómantískan helgarpakka fyrir sig og makann. Töskunum var skellt í skottið, hundinum í aftursætið og svo var ekið af stað. Helgin fór þó öðruvísi en á horfðist. Þrátt fyrir fögur fyrirheit fengu ekki allir jafnhlýjar móttökur á Chymorvah-hótelinu í Cornwall á Englandi. Hundurinn var jú velkominn. Makinn var það hins vegar ekki. Í janúar á síðasta ári voru eigendur hótelsins dæmdir til að greiða Steven Preddy og Martyn Hall 3.600 pund í skaðabætur. Hótelhöldurunum var fundið að sök að hafa brotið á mannréttindum Steven og Martyn er þeir neituðu þeim um gistingu á þeim forsendum að samkynhneigð gengi gegn trúarsannfæringu þeirra. Bresk stjórnvöld vinna nú að lagafrumvarpi sem heimila á giftingar samkynhneigðra. En þótt lög þar í landi leyfi ekki mismunun á grundvelli kynhneigðar stendur til að gefa einum krika samfélagsins undanþágu frá nýju hjúskaparlögunum. Ekki á að leyfa giftingar samkynhneigðra á vegum kirkjunnar eða annarra trúarsamtaka. Við Íslendingar eigum til að berja okkur á brjóst yfir meintri víðsýni í garð samkynhneigðra. Að ýmsu leyti megum við vera stolt af sjálfum okkur. Forsætisráðherra landsins er lesbía án þess að það þyki tiltökumál. Ísland varð níunda landið í heiminum til að leyfa hjónabönd samkynhneigðra. Gay pride er fjölskylduhátíð jafnvinsæl og 17. júní. En víða má gera betur. Hérlendis er prestum heimilt að gefa saman einstaklinga af sama kyni. Þeim er hins vegar í sjálfsvald sett hvort þeir geri það. Barþjónn gæti ekki neitað homma um afgreiðslu á bjór. Ekki frekar en blökkumanni eða gyðingi. Hvers vegna kirkjunni líðst að neita einum þjóðfélagshóp um þjónustu sína er með ólíkindum. Í vikunni var nýr biskup þjóðkirkjunnar kjörinn. Við slík tímamót er við hæfi að viðhorf kirkjunnar til samkynhneigðra sé sett á dagskrá á ný. Og hvort sem við stöndum innan eða utan kirkjunnar kemur umræðan okkur við. Afsláttur kirkjunnar á mannréttindum er ekki einkamál hennar heldur mál samfélagsins alls. Sjálfsmynd okkar Íslendinga er löskuð. Liðin er sú tíð að við getum kallað okkur mesta efnahagsundur í heimi; lítið hefur frést af fallegustu konum í heimi eftir að Icelandair seldi þær túristum í „dirty weekend"-pökkum. Staða mest „líbó" þjóðar í heimi er hins vegar laus. Hlotnist okkur hún verður Ísland sannarlega best í heimi.